Donald Trump Bandaríkjaforseti heitir Bandaríkjamönnum nýrri gullöld. Trump mun skrifa undir fjölda forsetatilskipana eftir skamma stund, eins og hann hafði lofað að gera í kosningabaráttu sinni.
Trump tók við embætti forseta á ný í þinghúsi Bandaríkjanna í dag.
Í ræðu sinni í þinghúsinu fór hann um víðan völl. Trump hét því meðal annars að lýsa yfir neyðarástandi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, draga Bandaríkin úr Parísarsamningnum, endurnefna Mexíkóflóa Ameríkuflóa og vísa milljónum ólöglegra innflytjenda úr landi. Þá mun ríkisstjórn hans aðeins viðurkenna tvö kyn, karlkyn og kvenkyn.
„Gullöld Bandaríkjanna hefst núna. Frá og með þessum degi mun land okkar blómstra og njóta virðingar um allan heim,“ sagði Trump.
„Mér var bjargað af Guði til að gera Bandaríkin frábær aftur,“ sagði forsetinn enn fremur og vísaði þar til skotárásarinnar sem framin var á kosningafundi hans í Butler í Pennsylvaníu í júlí.
Nú standa yfir hátíðarhöld í Capital One Arena í Washington D.C. Trump hitti þar meðal annars fjölskyldur gísla sem teknir voru af hryðjuverkasamtökunum Hamas 7. október 2023.
Eftir skamma stund mun hann undirrita fjölda forsetatilskipana.