Játaði allt á fyrsta degi réttarhaldanna

Stúlkurnar þrjár sem létu lífið í miskunnarlausri atlögu Axels Rudakubanas …
Stúlkurnar þrjár sem létu lífið í miskunnarlausri atlögu Axels Rudakubanas í Southport 29. júlí í fyrrasumar, Elsie Dot Stancombe, sjö ára, Alice da Silva Aguiar, níu ára, og Bebe King, sex ára. Ljósmynd/Lögreglan í Merseyside

Opinber rannsókn mun fara fram í Bretlandi á hinni hrottafengnu árás Axel Rudakubana á dansnámskeiði í Southport, um 100.000 íbúa bæjarfélagi norður af Liverpool, 29. júlí í fyrra þar sem hann stakk þrjár stúlkur, sex, sjö og níu ára, til bana auk þess að stinga átta börn til viðbótar og tvo fullorðna.

Rannsóknina fyrirskipaði Yvette Cooper innanríkisráðherra í dag, á fyrsta degi réttarhaldanna yfir Rudakubana, þar sem óvænt játning sakborningsins kom fram, en þegar dómari við sakadóminn í Liverpool, Liverpool Crown Court, bað ákærða að taka afstöðu til sakarefnisins játaði hinn átján ára gamli Rudakubana öll ákæruatriði undanbragðalaust, þrjú manndráp og tíu tilraunir til manndráps.

Gert að sæta forvarnameðferð

Rökstuddi ráðherra ákvörðun sína með því að fjölskyldur fórnarlamba árásarinnar hrottalegu, sem var íbúum Bretlandseyja reiðarslag er fréttir af henni bárust í júlílok, þyrftu svör um hver aðdragandi atlögu ódæðismannsins var, en Rudakubana var aðeins sautján ára gamall er skyndileg árás hans kom sem þruma úr heiðskíru lofti yfir íbúa Southport og ekki síst þátttakendur dansnámskeiðsins sem haldið var í anda verka bandarísku tónlistarkonunnar Taylor Swift.

Axel Rudakubana játaði á sig öll ákæruatriði er dómari þýfgaði …
Axel Rudakubana játaði á sig öll ákæruatriði er dómari þýfgaði hann um sakarafstöðu í morgun. Þrettán og fjórtán ára gömlum var honum gert að sæta forvarnameðferð gegn hryðjuverkum og öfgahyggju og var kerfinu vel kunnugt um innræti hans. Engu að síður gekk hann með eggvopn í hendi inn á fjölmennt dansnámskeið í Southport í fyrra sumar þar sem viðstaddir áttu sér einskis ills von. Ljósmynd/Lögreglan í Merseyside

Var lögreglu kunnugt um Rudakubana og þá hættu er af honum gæti stafað nokkrum árum fyrir daginn örlagaríka, en honum hefur í þrígang, þrettán og fjórtán ára gömlum árabilið 2019 til 2021, verið gert að sæta forvarnameðferð gegn hryðjuverkum og öfgahyggju sem í Bretlandi gengur undir nafninu „Prevent programme“.

„Engu að síður áttuðu þessir aðilar sig ekki á þeirri gífurlegu áhættu og þeim háska í garð annarra sem í honum bjó,“ sagði innanríkisráðherra í dag og beindi máli sínu til lögreglu, réttarkerfis og félagslega kerfisins á Englandi.

Manndráp, hnífaburður, eiturframleiðsla...

Játning Rudakubanas var sem fyrr segir óvænt, en hann neitaði öllum sakargiftum er hann kom fyrir dómara í desember þar sem honum var birt ákæra. Fyrir utan að játa í morgun þrjú manndráp og tíu tilraunir til manndráps lagði ógæfumaðurinn ungi öll spilin á borðið og játaði ólöglegan hnífaburð, framleiðslu hins baneitraða efnis rísíns, en skammtur af því á stærð við títuprjónshaus getur banað fullorðinni manneskju, og að hafa haft í fórum sínum þjálfunarhandbók hryðjuverkasamtakanna al-Kaída.

Hafa bresk dómsmálayfirvöld verið vítt fyrir að halda þeim upplýsingum leyndum fyrir fulltrúum Íhaldsflokksins og Umbótaflokksins, Reform UK, að Rudakubana væri heltekinn af ofbeldi og hryðjuverkum.

Þessu svaraði Cooper innanríkisráðherra með því að ákæruvaldinu hefði verið það fullljóst að þá vitneskju hefði ekki mátt opinbera fyrr en í dag svo málsmeðferðinni fyrir dómi yrði ekki stefnt í voða eða óæskileg áhrif höfð á hugsanlega kviðdómendur í málinu í samræmi við breskar réttarfarsreglur.

BBC

The Guardian

The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert