Játaði allt á fyrsta degi réttarhaldanna

Stúlkurnar þrjár sem létu lífið í miskunnarlausri atlögu Axels Rudakubanas …
Stúlkurnar þrjár sem létu lífið í miskunnarlausri atlögu Axels Rudakubanas í Southport 29. júlí í fyrrasumar, Elsie Dot Stancombe, sjö ára, Alice da Silva Aguiar, níu ára, og Bebe King, sex ára. Ljósmynd/Lögreglan í Merseyside

Op­in­ber rann­sókn mun fara fram í Bretlandi á hinni hrotta­fengnu árás Axel Ru­dakubana á dans­nám­skeiði í Sout­hport, um 100.000 íbúa bæj­ar­fé­lagi norður af Li­verpool, 29. júlí í fyrra þar sem hann stakk þrjár stúlk­ur, sex, sjö og níu ára, til bana auk þess að stinga átta börn til viðbót­ar og tvo full­orðna.

Rann­sókn­ina fyr­ir­skipaði Yvette Cooper inn­an­rík­is­ráðherra í dag, á fyrsta degi rétt­ar­hald­anna yfir Ru­dakubana, þar sem óvænt játn­ing sak­born­ings­ins kom fram, en þegar dóm­ari við saka­dóm­inn í Li­verpool, Li­verpool Crown Court, bað ákærða að taka af­stöðu til sak­ar­efn­is­ins játaði hinn átján ára gamli Ru­dakubana öll ákæru­atriði und­an­bragðalaust, þrjú mann­dráp og tíu til­raun­ir til mann­dráps.

Gert að sæta for­varnameðferð

Rök­studdi ráðherra ákvörðun sína með því að fjöl­skyld­ur fórn­ar­lamba árás­ar­inn­ar hrotta­legu, sem var íbú­um Bret­lands­eyja reiðarslag er frétt­ir af henni bár­ust í júlí­lok, þyrftu svör um hver aðdrag­andi at­lögu ódæðismanns­ins var, en Ru­dakubana var aðeins sautján ára gam­all er skyndi­leg árás hans kom sem þruma úr heiðskíru lofti yfir íbúa Sout­hport og ekki síst þátt­tak­end­ur dans­nám­skeiðsins sem haldið var í anda verka banda­rísku tón­list­ar­kon­unn­ar Tayl­or Swift.

Axel Rudakubana játaði á sig öll ákæruatriði er dómari þýfgaði …
Axel Ru­dakubana játaði á sig öll ákæru­atriði er dóm­ari þýfgaði hann um sak­araf­stöðu í morg­un. Þrett­án og fjór­tán ára göml­um var hon­um gert að sæta for­varnameðferð gegn hryðju­verk­um og öfga­hyggju og var kerf­inu vel kunn­ugt um inn­ræti hans. Engu að síður gekk hann með eggvopn í hendi inn á fjöl­mennt dans­nám­skeið í Sout­hport í fyrra sum­ar þar sem viðstadd­ir áttu sér einskis ills von. Ljós­mynd/​Lög­regl­an í Mers­eysi­de

Var lög­reglu kunn­ugt um Ru­dakubana og þá hættu er af hon­um gæti stafað nokkr­um árum fyr­ir dag­inn ör­laga­ríka, en hon­um hef­ur í þrígang, þrett­án og fjór­tán ára göml­um ára­bilið 2019 til 2021, verið gert að sæta for­varnameðferð gegn hryðju­verk­um og öfga­hyggju sem í Bretlandi geng­ur und­ir nafn­inu „Prevent programme“.

„Engu að síður áttuðu þess­ir aðilar sig ekki á þeirri gíf­ur­legu áhættu og þeim háska í garð annarra sem í hon­um bjó,“ sagði inn­an­rík­is­ráðherra í dag og beindi máli sínu til lög­reglu, rétt­ar­kerf­is og fé­lags­lega kerf­is­ins á Englandi.

Mann­dráp, hnífa­b­urður, eit­ur­fram­leiðsla...

Játn­ing Ru­dakuban­as var sem fyrr seg­ir óvænt, en hann neitaði öll­um sak­argift­um er hann kom fyr­ir dóm­ara í des­em­ber þar sem hon­um var birt ákæra. Fyr­ir utan að játa í morg­un þrjú mann­dráp og tíu til­raun­ir til mann­dráps lagði ógæfumaður­inn ungi öll spil­in á borðið og játaði ólög­leg­an hnífa­b­urð, fram­leiðslu hins ban­eitraða efn­is rísíns, en skammt­ur af því á stærð við títu­prjóns­haus get­ur banað full­orðinni mann­eskju, og að hafa haft í fór­um sín­um þjálf­un­ar­hand­bók hryðju­verka­sam­tak­anna al-Kaída.

Hafa bresk dóms­mála­yf­ir­völd verið vítt fyr­ir að halda þeim upp­lýs­ing­um leynd­um fyr­ir full­trú­um Íhalds­flokks­ins og Um­bóta­flokks­ins, Reform UK, að Ru­dakubana væri heltek­inn af of­beldi og hryðju­verk­um.

Þessu svaraði Cooper inn­an­rík­is­ráðherra með því að ákæru­vald­inu hefði verið það full­ljóst að þá vitn­eskju hefði ekki mátt op­in­bera fyrr en í dag svo málsmeðferðinni fyr­ir dómi yrði ekki stefnt í voða eða óæski­leg áhrif höfð á hugs­an­lega kviðdóm­end­ur í mál­inu í sam­ræmi við bresk­ar réttar­fars­regl­ur.

BBC

The Guar­di­an

The Tel­egraph

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka