Skutu pilt fyrir sveðjuatlögu

Horft yfir Alna-hverfið í Austur-Ósló, frá vinstri Tveita, Haugerud og …
Horft yfir Alna-hverfið í Austur-Ósló, frá vinstri Tveita, Haugerud og Hellerud, en við fyrstnefnda hverfið var alræmd glæpaklíka, Tveita-gjengen, kennd á öldinni sem leið. Sextán ára piltur er grunaður um að skjóta annan, einnig undir lögaldri, í fótinn á Ulven í Alna á föstudaginn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Drónamynd á vegum Wikimedia

Tveir sautján ára gamlir piltar og einn sextán ára sitja í gæsluvarðhaldi í Ósló í Noregi, grunaðir um tilraun til manndráps og samverknað við tilraun til manndráps eftir að einn drengurinn enn undir lögaldri var skotinn í fótinn á Ulven í Alna-hverfinu í Austur-Ósló á föstudagskvöldið.

Sextán ára gamli drengurinn var handtekinn sama kvöld en hinir tveir á laugardaginn. Þeir síðarnefndu neita báðir sök í málinu, en sextán ára gamli drengurinn kannast við yfirheyrslu lögreglu við að hafa verið á vettvangi. Neitar hann þó sök, en við gæsluvarðhaldsþinghaldið kom fram að hann er talinn hafa verið aðalmaður við framningu brotsins.

„Ákaflega óheppilegt“

Annar sautján ára drengurinn situr í varðhaldinu í gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir fullorðna afbrotamenn og gagnrýnir verjandi hans, Cathrin Sagen Aspaas, það harðlega í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Réttinum var tjáð að hann yrði settur í fullorðinsfangelsi þar sem ungmennarýmin eru yfirfull, ég tel ákaflega óheppilegt að rétturinn hafi fallist á þetta,“ segir verjandinn.

Að sögn verjanda sextán ára drengsins hefur sá kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til lögmannsréttar þar sem hann fellst ekki á sakargiftir ákæruvaldsfulltrúa lögreglu.

Sá sem misgert var við var fluttur alvarlega sár á sjúkrahús, en er ekki í lífshættu og var með meðvitund er lögregla kom á vettvang á föstudagskvöldið.

Tvær klíkur troðið illsakir

Talið er að skotárásin hafi verið hluti af uppgjöri glæpagengja og hefnd og gerði sá yngsti grunuðu nokkra grein fyrir aðdraganda og gangi mála við gæsluvarðhaldsþinghaldið. Kvað hann skotárásina hafa verið hefnd fyrir árás á félaga þeirra grunuðu á dögunum þar sem sveðju var beitt.

Lögreglan í Ósló hefur átt annríkt vegna skot- og stunguárása …
Lögreglan í Ósló hefur átt annríkt vegna skot- og stunguárása undanfarin misseri. Hér má sjá lögregluþjóna á hestum og brynvarða bifreið lögreglu í tengslum við mótmæli í miðbæ Óslóar vorið 2019. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Kvaðst hann á föstudaginn hafa tekið fjölskyldubifreið heimilisins traustataki og ekið við fjórða mann áleiðis að Ulven. Greindi hann frá því að lengi hefðu tvær klíkur á svæðinu troðið illsakir og þarna hefði stund hefndarinnar verið runnin upp eftir sveðjuatlöguna, en ekki er haft eftir grunaða í norskum fjölmiðlum hvar eða hvenær sú hildin var háð.

Greindi hann héraðsdómara frá því að þeir félagar hefðu búist við að mæta fleiri en einum andstæðingi á Ulven og lögð hefðu verið á ráðin meðal þeirra fjórmenninga um orðaskak við andstæðingana, í versta falli slagsmál. Honum hefði þá ekki verið kunnugt um að einn þeirra bæri skotvopn innanklæða, en hafði hann þó sjálfur nokkrum vikum áður verið tekinn með skotvopn.

Hafið yfir vafa

Taldi héraðsdómari hafið yfir skynsamlegan vafa að gruna þann yngsta hinna þriggja grunuðu um beitingu skotvopnsins. „Grunaði og sá félagsskapur sem hann tilheyrir víla ekki fyrir sér að bera vopn,“ sagði dómari við þinghaldið og kvað upp úrskurð um tveggja vikna gæsluvarðhald í ungmennafangelsi með bréfa- og heimsóknabanni.

Mun drengurinn því sitja þar næstu daga nema lögmannsréttur sjái annmarka á gæsluvarðhaldsúrskurðinum sem þeir verjandinn hafa sem fyrr segir kært.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert