Tala látinna er komin upp í 66 eftir eldsvoða á vinsælu skíðahóteli í Bolu í Tyrklandi í nótt, að sögn innanríkisráðherra landsins. Einhverjir létust við að stökkva út um glugga á hótelinu. Að minnsta kosti 51 slasaðist í eldsvoðanum.
Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands, sagði í viðtali við fjölmiðla í dag mikla sorg ríkja vegna eldsvoðans.
Eldurinn braust út á fjórða tímanum í nótt og var fljótur að læsa sig í timburklæðningu tólf hæða hótelsins. Talið er að upptök eldsins hafi verið í eldhúsi á fjórðu hæð og breiddist eldurinn hratt út.
Samkvæmt frétt BBC tók það slökkviliðsmenn yfir klukkutíma að komast á vettvang, bæði vegna fjarlægðar og veðuraðstæðna.
Hótelið, sem ber heitið The Grand Kartal, er staðsett ofarlega í fjallshlíð. Tyrkneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að 234 gestir hafi verið á hótelinu í nótt.