Evrópa þarf nú að huga betur að varnarmálum

Varnarmálaráðherra Frakklands segir Evrópu þurfa að huga betur að varnarmálum nú þegar Donald Trump er sestur í forsetastól í Bandaríkjunum.

Trump hefur gefið til kynna á síðustu mánuðum að hann muni beina kröftum bandaríska hersins að miklum hluta frá Evrópu og í átt að Asíu.

Evrópa þarf, sama hvað, að vinna að því að verða sjálfstæðari þegar kemur að varnarmálum, að sögn ráðherrans, sem segir þó kjör Trumps vera „spark í rassinn“.

Donald Trump við innsetningarathöfnina í gær. Þar minntist hann ekkert …
Donald Trump við innsetningarathöfnina í gær. Þar minntist hann ekkert á stríðið í Úkraínu. AFP/Chip Somodevilla

Þurfum að þróa okkar eigin varnariðnað

„Kannski mun hreinskilni Trumps loks vekja okkur til umhugsunar,“ segir Sebastien Lecornu, varnarmálaráðherra Frakklands.

„Í áratugi höfum við freistast til þess að skýla okkur undir bandarísku kjarnavopnaregnhlífinni,“ segir hann enn fremur.

Nú þurfi Evrópubúar aftur á móti að þróa sinn eigin varnariðnað. Þá segist hann ekki hlynntur því að kaupa vopn í meira magni frá Bandaríkjunum.

„Það er ekki rétta leiðin.“

Leysum ekki vandann með hamborgurum og bílum

Lecornu vandaði nafna sínum, og fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands, Sebastien Sejourne, ekki kveðjuna.

Sejourne, sem er nú varaforseti velmegunar og iðnaðarþróunar hjá Evrópusambandinu, sagði í gær að hægt væri að semja við Trump um hagstæð viðskiptakjör fyrir meiri vopnakaup frá bandarískum fyrirtækjum.

„Við munum ekki skipta á öryggi okkar fyrir hamborgara og þýska bíla,“ segir Lecornu.

Minntist ekkert á Úkraínustríðið

Vekur hann jafnframt athygli á því að Trump hefði ekki minnst einu orði á stríðið í Úkraínu í stefnuræðu sinni við innsetningarathöfnina í gær.

Telur franski ráðherrann það vera til marks um dvínandi áhuga Bandaríkjamanna á Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert