„Sársauki okkar er nístandi“

Grand Kartal-hótelið er illa farið eftir brunann og hafa fjórir …
Grand Kartal-hótelið er illa farið eftir brunann og hafa fjórir verið handteknir vegna málsins, þar á meðal eigandinn. Gestir sem komust lífs af kváðust ekki hafa orðið varir við neinar brunavarnir á hótelinu þrátt fyrir að ferðamálaráðherra Tyrklands haldi öðru fram. AFP/Adem Altan

„Fólkið bað um teppi undir svo það gæti stokkið og við náðum í kodda og sófa,“ segir Baris Salgur, starfsmaður hótels í nágrenni Grand Kartal-skíðahótelsins í Bolu í Kartalkaya í Norðvestur-Tyrklandi, í samtali við NTV-sjónvarpsstöðina þarlendu í kjölfar eldsvoða á hótelinu sem hófst á fjórða tímanum í nótt að tyrkneskum tíma, upp úr miðnætti á Íslandi.

Varð eldurinn 66 manns að bana og 51 hlaut benjar misalvarlegar, en fjölmenni nýtur nú tveggja vikna vetrarfrís síns á skíðasvæðinu í Kartalkaya sem er um 170 kílómetra norðvestur af tyrknesku höfuðborginni Ankara.

Sjónarvottar og gestir sem áttu sér undankomu auðið úr brennandi byggingunni lýstu skelfingarástandinu í viðtölum við fjölmiðla og kváðu fólk hafa neytt allra ráða til að koma sér út, en eins og sjá má á myndum með þessari frétt er fallið hátt frá gluggum þriðju hæðar og þaðan af ofar.

Bað um kodda til að varpa barni á

„Fólk á efri hæðunum öskraði og varpaði lökum út um gluggana, einhverjir reyndu að stökkva,“ sagði Atakan Yelkovan við IHA-fréttastofuna, en hann komst niður af þriðju hæðinni ásamt eiginkonu sinni. Starfsmaður hótelsins, sem ekki kom fram undir nafni, sagði sömu fréttastofu að faðir með barn sitt í fanginu hefði hrópað til fólks utandyra og beðið það að tína til kodda svo hann gæti kastað barninu niður. „Sem betur fer beið hann eftir slökkviliðinu sem bjargaði þeim,“ sagði starfsmaðurinn.

Leitarteymi fetar sig inn í illa farna bygginguna eftir að …
Leitarteymi fetar sig inn í illa farna bygginguna eftir að eldurinn hafði verið slökktur. Slökkvilið var eina klukkustund á leið á skíðasvæðið og kostaði biðin vafalítið tugi mannslífa. AFP/Adem Altan

Slökkvilið átti um langan veg að fara og var eina klukkustund á leiðinni, ferðalag sem vafalítið kostaði tugi mannslífa, en 238 gestir dvöldu á hótelinu þegar eldurinn braust út í nótt. Að minnsta kosti þrír létu lífið við að reyna að klifra út um glugga efri hæðanna eftir því sem NTV-sjónvarpsstöðin greinir frá.

„Sársauki okkar er nístandi,“ sagði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sem hefur lýst yfir þjóðarsorg í Tyrklandi á morgun, miðvikudag, og auk þess fyrirskipað ítarlega rannsókn á upptökum eldsins með það fyrir augum að þeir sæti ábyrgð sem hana bera. Hefur lögregla þegar handtekið fjóra, þar á meðal eiganda hótelsins, og skrifar Yilmaz Tunc dómsmálaráðherra á samfélagsmiðilinn X að sex saksóknarar hafi fengið málið til rannsóknar og ákærumeðferðar.

Grískur ráðherra bugaður

Tyrkneski ferðamálaráðherrann Nuri Ersoy kvað hótelið hafa tvo neyðarútganga og hafa staðist brunaúttekt árin 2021 og 2024. Nokkrir gestanna höfðu þó aðra sögu að segja og könnuðust ekki við að hafa orðið varir við nokkrar brunavarnir á hótelinu.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sendi Tyrkjum samúðarkveðju sína á X og lofaði um leið vasklega framgöngu þeirra viðbragðsaðila er fyrstir voru á vettvang. Kvað forsetinn Evrópu standa sameinaða við hlið Tyrklands og tyrknesku þjóðarinnar á ögurstundu.

Þá ritaði gríski forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis kveðju sína á sama miðil og kvaðst bugaður vegna þeirra mannslífa er fóru forgörðum á skíðasvæðinu tyrkneska. „Hjartanlegar samúðarkveðjur til fjölskyldna fórnarlambanna,“ ritaði gríski ráðherrann enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert