Yfir fjörutíu skotum var hleypt af og lágu tveir í valnum þegar í brýnu sló milli lögreglu og félaga í skotfélagi á Jæren í Rogaland, á vesturströnd Noregs, aðfaranótt 28. desember í kjölfar þess er lögreglu barst tilkynning um ógnandi háttsemi vopnaðs manns við heimili fyrrverandi vinnufélaga þess vopnaða.
Atburðir þessir gerðust á svæði sunnan fylkishöfuðborgarinnar Stavanger og lyktaði með því að skotfélagsmaðurinn, Geir Roald Hodne heitinn, rúmlega fertugur og ekki í andlegu jafnvægi umrætt kvöld, var skotinn níu skotum lögreglu, þar af einu sem hæfði hann í höfuðið. Þá lét 25 ára gamall lögreglumaður, Markus Botnen, líf sitt og félagi hans á lögreglubifreiðinni var skotinn í fótinn.
Áður en til skotbardagans kom hafði Hodne heimsótt fyrrverandi vinnufélaga sinn, mann á sextugsaldri, og þá verið vopnaður. Lögreglan í vesturumdæminu hefur ekki gefið upp hvers kyns skotvopn skotfimikeppandinn bar, en hann var virkur í skotfélagi á Jæren, landbúnaðarhéraðinu sunnan Stavanger sem Jaðar hét í konungasögum, og var skráður fyrir átta skotvopnum. Síðast keppti Hodne í skotfimi þremur vikum fyrir dauða sinn, 7. desember.
Samkvæmt framburði vinnufélagans fyrrverandi bar Hodne skammbyssu er hann kom að heimili hans, en hann var skráður fyrir fimm skammbyssum og þremur rifflum. Skammbyssurnar er hann hafði leyfi fyrir voru 45 kalíbera Heckler & Koch, 44 magnum Taurus, 357 magnum Coonan, 9 mm Heckler & Koch Parabellum og 22 kalíbera Harrington.
Hege Veland er verjandi vinnufélagans fyrrverandi sem hefur stöðu grunaðs í málinu. Segist henni svo frá, fyrir hönd skjólstæðings síns, að Hodne hafi komið að heimili mannsins með skotvopn á lofti. Hafi hann virst í nokkru ójafnvægi, kvaðst hafa fyllt hús sitt í Klepp af sprengiefnum og ætlað sér að kveikja í því.
Óskaði Hodne, sem var akandi, eftir því að vinnufélaginn fyrrverandi kæmi með sér og æki bifreiðinni og lét maðurinn til leiðast öryggis barnanna vegna. Kvaðst hann, skömmu eftir að aksturinn hófst, þurfa að kasta af sér vatni, ók aftur að heimili sínu og fór inn þar sem hann bað son sinn að gera lögreglu aðvart. Óku þeir Hodne svo til Klepp.
Skömmu síðar komu tvær lögreglubifreiðar aðvífandi, voru Botnen heitinn og félagi hans í þeirri er fyrr kom að, en tveir lögregluþjónar til í hinni síðari. Fleiri lögreglubifreiðar voru skammt undan. Gáfu Botnen og félagi hans Hodne og ökumanninum merki um að stöðva bifreiðina og stöðvaði vinnufélaginn fyrrverandi hana á stoppistöð fyrir strætisvagna og steig þegar út með hendur á höfði.
Lögregluþjónunum var fullkunnugt um að Hodne væri vopnaður. Voru þeir íklæddir skotheldum vestum og þrír þeirra vopnaðir Heckler & Koch MP5-hríðskotabyssum og Glock-skammbyssum er þeir stigu út úr lögreglubifreiðunum.
Hodne beið þá ekki boðanna og hóf þegar skothríð úr þeirri skammbyssu úr safni sínu sem hann bar þessa nótt. Skaut hann fyrst úr sitjandi stöðu í farþegasæti bifreiðar sinnar, en steig því næst út úr bifreiðinni og gekk ákveðnum skrefum í átt að fremri lögreglubifreiðinni á meðan hann hleypti af vopni sínu án afláts.
Leituðu lögregluþjónarnir skjóls bak við lögreglubifreiðina og skutu til baka sem kom þó ekki í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist í færi. Skaut hann að Botnen og hæfði kúlan hann í efri hluta líkamans sem vestið huldi ekki og varð hans bani. Hinn lögregluþjónninn fékk sem áður segir skot í fótlegg.
Lyktaði skotbardaganum svo að níu kúlur lögreglunnar hæfðu Hodne sem féll í jörðina og var látinn. Er hann formlega grunaður um manndráp, tilraun til manndráps og hótanir þrátt fyrir að hafa safnast til feðra sinna.
Botnen heitinn var einnig grunaður um manndráp, en rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu féll frá grunsemdunum í kjölfar rannsóknar sinnar. Ökumaðurinn, fyrrverandi vinnufélagi Hodnes, er grunaður um samverknað við manndráp og tilraun til manndráps, en má búast við að lögregla falli frá þeim grunsemdum.
Veland verjandi segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að skjólstæðingur sinn hafi verið óttasleginn og hugsað sér að koma Hodne til síns heima og losna þar við hann.
Hans Marius Thorsnæs, verjandi Hodnes heitins, vill ekki tjá sig um málið þar sem hann hefur ekki fengið málsskjöl frá lögreglu sem hann þegar hefur óskað eftir.
Sprengjusveit lögreglu hélt á heimili Hodnes og leitaði þar að sprengiefnum í samræmi við orð hans um að hann hefði fyllt hús sitt af þeim og hygðist kveikja í því. Ekkert fannst við leitina.
Markus Botnen er annar lögregluþjónninn sem skotinn er til bana í Rogaland á tveimur áratugum, en 5. apríl 2004, er David Toska framdi NOKAS-ránið í miðbæ Stavanger við ellefta mann, skaut einn ræningjanna, Kjell Alrich Schumann, lögregluvarðstjórann Arne Sigve Klungland til bana með AG-3-riffli er Klungland kom akandi að vettvangi ránsins á Dómkirkjutorginu. Fjallaði mbl.is ítarlega um NOKAS-ránið er fimmtán ár voru liðin frá því vorið 2019.
NRK-II (skýrsla rannsóknarnefndar í innri málum lögreglu)
NRK-III (kristinn bindindismaður segja vinir Hodnes um hann)