Stjórnvöld í Kína hafa heitið því að tryggja þjóðaröryggi sitt í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að tíu prósenta tollur gæti lagst á kínverskar vörur strax þann 1. febrúar.
„Við höfum alltaf staðið í þeirri trú að það séu engir sigurvegarar í vöruskiptastríði eða tollastríði,“ segir talmsaður kínverska utanríkisráðuneytisins Mao Ning.
„Kína er staðfast í að gæta sinna þjóðarhagsmuna.“
Trump hét því í gær að leggja toll á varning frá löndum Evrópusambandsins, auk þess sem tíu prósenta tollur yrði lagður á kínverskan innflutning um mánaðamótin.
„Þau koma mjög, mjög illa fram við okkur. Svo þau munu verða fyrir tollum,“ segir Trump um Evrópusambandið.
Á mánudag sakaði hann Evrópu um að flytja ekki nógu mikinn varning inn frá Bandaríkjunum. Sagðist hann ætla að breyta því, m.a. með tollum eða með því að hvetja til frekar viðskipta með olíu og gas.
Hvað Kína varðar sagði hann ákvörðunina um tollinn á vörur frá þeim „byggjast á þeirri staðreynd að Kínverjar væru að flytja fentanyl til Mexíkó og Kanada“.
Þá hefur Trump einnig hótað því að leggja 25 prósenta toll á innfluttan varning frá Kanada og Mexíkó í refsingarskyni fyrir að stöðva ekki ólöglega för innflytjenda til Bandaríkjanna og koma ekki í veg fyrir smygl Fentanyls til Bandaríkjanna.