Könnun: Bandaríkjamenn vilja vísa milljónum brott

Donald Trump hefur undirritað margar forsetatilskipanir á síðustu tveimur dögum.
Donald Trump hefur undirritað margar forsetatilskipanir á síðustu tveimur dögum. AFP/Jim Watson

Stuðningur við stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í útlendingamálum, utanríkismálum og málefnum trans fólks er mikill í Bandaríkjunum. Helmingur Bandaríkjamanna er þó mótfallinn því að hækka tolla á innfluttar vörur frá Kína og Bandaríkjunum. 

Þetta kemur fram í könnun New York Times og Ipsos sem birt var á sunnudag, degi fyrir embættistöku Trumps.

Trump er búinn að skrifa undir fjölda forsetatilskipananna sem lúta að ýmsum hlutum eins og ólöglegum innflytjendum, málefnum trans fólks og orkuöflun.

Meirihluti vill vísa öllum ólöglegum í landinu brott

56% styðja að vísa öllum þeim sem hafa komið ólöglega til Bandaríkjanna brott, en talið er að á bilinu 13-14 milljónir manns séu í landinu ólöglega samkvæmt New York Times.

Stuðningur við brottvísun glæpamanna sem eru ólöglega í landinu er yfir 80% og þá styðja tveir þriðju svarenda brottvísun allra sem komu ólöglega til landsins á síðustu fjórum árum.

Trump hef­ur á sínum fyrstu dögum fryst komu flótta­manna til Banda­ríkj­anna í fjóra mánuði, lýst yfir neyðarástandi við landa­mær­in að Mexí­kó og und­ir­ritað til­mæli til viðeig­andi stofn­ana um að hefja á ný bygg­ingu landa­mæramúrs við Mexí­kó.

Hann lofar mestu brottvísunum í sögu Bandaríkjanna og kveðst ætla byrja á því að vísa úr landi glæpamönnum sem eru ólöglega í landinu. 

Meirihluti ósammála tilskipun Trumps

Ein af forsetatil­skip­unum Trumps lýtur að því að fella úr gildi banda­rísk­an rík­is­borg­ara­rétt barna sem fæðast á banda­rískri grundu óháð þjóðerni for­eldra þeirra.

Ekki er ljóst að þessi tilskipun nái fram að ganga þar sem 14. viðauki stjórnarskrár Bandaríkjanna kveður á um að allar manneskjur sem fæðast í Bandaríkjunum fái sjálfkrafa ríkisborgararétt.

Samkvæmt könnuninni þá vilja 55% Bandaríkjamanna áfram tryggja þennan stjórnarskrárvarða rétt á sama tíma og 41% vilja fella hann úr gildi, líkt og forsetatilskipun Trumps kveður á um.

Yfirgnæfandi meirihluti vill ekki transkonur í kvennaíþróttir

49% svarenda segja að samfélagið hafi gengið of langt í að reyna aðlagast trans fólki á sama tíma og 21% segja að samfélagið hafi ekki gengið nógu langt.

28% segja ágætt jafnvægi sé komið í málefnum trans fólks.

79% eru mótfallnir því að transkonur fái að keppa á móti líffræðilegum konum (e. biological females) í kvennaíþróttum og 71% eru mótfallnir því að trans börn fái kynþroskabælandi lyf. Trump talaði mikið um þessi mál í kosningabaráttunni.

Trump hefur und­ir­ritað for­seta­til­skip­un þar sem m.a. er kveðið á um að kyn­in skuli vera tvö.

Trump hefur undirritað forsetatilskipanir sem er ætlað að binda enda á aðgerðaáætlan­ir rík­is­ins sem ætlað er að stuðla að jöfnuði, fjöl­breyti­leika og inngildingu. Svo­kölluð DEI-verkefni sem hafa verið mjög umdeild í Bandaríkjunum.

Samkvæmt könnunni þá eru 48% mótfallnir DEI-verkefnum í skólum, háskólum og hjá opinberum stofnunum en 47% styðja þau.

Meirihluti segir Bandaríkin eyða of miklu í Úkraínu

21% segja að þeir séu spenntir fyrir kjörtímabili Trumps og 26% segja að þeir séu bjartsýnir en ekki spenntir. 14% eru svartsýnir á kjörtímabilið en hafa þó ekki áhyggjur. 37% hafa áhyggjur af komandi kjörtímabili.

Margir fylgjast með því hvernig Trump ætlar að beita sér á alþjóðavettvangi en hann hefur almennt talað fyrir því að Bandaríkin blandi sér ekki í of margar deilur.

51% segja að Bandaríkjamenn séu að eyða of miklum fjármunum í stuðningi við Úkraínu á sama tíma og aðeins 17% segja að Bandaríkin séu að eyða of litlum fjármunum.

Helmingur vill ekki hækka tolla á Kína og Mexíkó

60% svarenda sögðu að Bandaríkin ættu að huga minna að vandamálum erlendis og einbeita sér frekar að vandamálum heima fyrir.

Trump hefur talað um að hækka tolla á vörur frá Kína og Mexíkó. 50% eru mótfallnir hækkun tolla á þjóðir eins og Kína og Mexíkó á sama tíma og 46% styðja hækkun tolla á þessar þjóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert