Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu

Tyrklandsforseti hefur sagt að þeir sem beri ábyrgð á eldsvoðanum …
Tyrklandsforseti hefur sagt að þeir sem beri ábyrgð á eldsvoðanum verði sóttir til saka. AFP/Ozan Kose

Nú hefur verið staðfest að 76 létu lífið í eldsvoða á vinsælu skíðahóteli í Bolu í Kartalkaya í Tyrklandi í fyrrinótt, en viðbragðsaðilar leita enn líkamsleifa í rústunum. Meðal látinna eru mörg börn og ungmenni. Þar fyrir utan slösuðust 51.

Rannsókn er hafin vegna málsins og níu hafa verið handteknir, þar á meðal eigandi hótelsins. Getgátur hafa verið uppi um hvort hótelið hafi uppfyllt reglur um eldvarnir. BBC greinir frá.

Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, sem mun heimsækja Bolu í dag, hefur sagt að þeir sem beri ábyrgð á þeirri vanrækslu sem leiddi til eldsvoðans, verði sóttir til saka.

AFP/Adem Altan

Víða flaggað í hálfa stöng

Eld­ur­inn braust út á fjórða tím­an­um í fyrrinótt og var fljót­ur að læsa sig í timb­urklæðningu tólf hæða hót­els­ins. Eldsupptök eru enn ókunn en talið er að eldurinn hafi kviknað í eld­húsi á fjórðu hæð og breidd­ist hratt út. 234 gestir voru á hótelinu.

Slökkviliðið þurfti að fara um langan veg og var rúman klukkutíma á leiðinni, en veður tafði einnig fyrir. Um tólf tíma tók að ráða niðurlögum eldsins.

Mikil sorg ríkir í Tyrklandi vegna málsins og er víða flaggað í hálfa stöng, en fyrstu fórnarlömbin verða borin til grafar í dag.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert