Ríkisstjórn Donald Trump hefur beint því til bandarískra saksóknara að rannsaka embættismenn sem ekki munu fylgja innflytjendastefnu Trumps, samkvæmt minnisblaði til starfsmanna dómsmálaráðuneytisins. Reuters greinir frá.
„Alríkislög banna aðilum ríkis og sveitarfélaga að veita mótspyrnu eða hindra löglegar skipanir og beiðnir tengdar innflytjendum,“ segir í minnisblaðinu, sem skrifað var af Emil Bove, starfandi aðstoðardómsmálaráðherra, sem útnefndur var af Trump og starfaði síðast í varnarteymi hans.
Minnisblaðið, sem dagsett er á þriðjudag og gert var opinbert á miðvikudag, leggur línur fyrir harða eftirfylgni dómsmálaráðuneytisins með stefnu Trumps í innflytjendamálum og opnar möguleikann á að þeir sem ekki munu fylgja stefnunni verði ákærðir.
Þar segir að embættismenn ríkis og sveitarfélaga sem hindra framfylgd stefnunnar gætu verið ákærðir samkvæmt alríkislögum. Lögin eigi að koma í veg fyrir féflettingu Bandaríkjanna og hýsingu ólöglegra innflytjenda.
Ef saksóknarar kjósa að höfða ekki sakamál í kjölfar slíkrar rannsóknar yrðu þeir að gera forystu dómsmálaráðuneytisins viðvart, segir í minnisblaðinu.
Í minnisblaðinu segir Bove einnig starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins að nýja tilskipunin sé leið til að framfylgja fjölda fyrirmæla sem Trump skrifaði undir um ólöglega innflytjendur á fyrsta degi.