Fordæmalaust fárviðri sem gæti orðið sögulegt

Lægðin Jóvin er enn úti í Atlantshafi.
Lægðin Jóvin er enn úti í Atlantshafi. Skjáskot/windy.com

Ofsaveður mun gera yfir Bretlandseyjum á næsta sólarhring og stefna þar lífi fjölda fólks í hættu. Veðrið er enn í aðsigi undan vesturströnd Írlands og þykir líklegt til að valda töluverðu tjóni.

Veðurstofur Írlands og Bretlands hafa gefið lægðinni nafnið Jóvin, eða Éowyn á þeirra tungu.

Mest þykir hættan á Írlandi, Norður-Írlandi og í Skotlandi, þar sem lægðin gengur að líkindum yfir úr suðvestri og færist meðfram norðvesturströnd Írlands áður en hún fer yfir Skotland.

Fyrsta sinn frá því kerfið var tekið upp

Veðurstofa Írlands hefur gefið út rauða viðvörun fyrir alla eyjuna. Þetta er í fyrsta sinn sem slík viðvörun er gefin út fyrir Norður-Írland frá því viðvörunarkerfið var tekið upp árið 2011.

Írska vegagerðin biðlar til almennings um að vera alls ekki á ferð á meðan „þetta fordæmalausa og lífshættulega“ ofsaveður gengur yfir.

„Þetta er ekki hefðbundinn veðuratburður – þetta hefur burði til að verða verulegt og sögulegt fárviðri sem stefnir lífi fólks í alvarlega hættu,“ segir í viðvörun vegagerðarinnar.

Rauðar viðvaranir aðeins fyrir verstu veðrin

Búist er við miklu roki og regni og sums staðar snjókomu á morgun. Enginn hluti Bretlandseyja er undanskilinn viðvörunum, sem eru appelsínugular og gular eftir því sem landshlutar eru fjær áætlaðri stefnu Jóvinar.

„Við notum rauðar viðvaranir aðeins fyrir verstu veðrin sem hafa í för með sér líklega hættu á mannskaða og miklum truflunum,“ segir aðalveðurfræðingur bresku veðurstofunnar, Paul Gundersen, í yfirlýsingu.

„Og það er tilfellið með storminn Jóvin.“

Segir hann mesta vindinn líklega verða á Norður-Írlandi, í miðju Skotlandi og í suðvesturhluta þess. Vindur þar gæti víða numið meira en 35 metrum á sekúndu og allt upp í 45 metra á sekúndu við ströndina.

„Ekki ferðast. Ekki fara nærri sjónum“

Forsætisráðherra Írlands tilkynnti fyrir stundu að hann hefði verið upplýstur um Jóvin og hættuna sem af henni stafar.

Segir hann Jóvin hættulega og að henni fylgi eyðileggingarkraftur.

„Við getum ekki gefið viðvörun af hærra stigi en RAUTT á landsvísu. Lífshættan er ákaflega mikil og raunveruleg. Þið verðið að veita þessu athygli. Ekki ferðast. Ekki fara nærri sjónum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert