Öllum skólum á Írlandi og Norður-Írlandi verður lokað á morgun, föstudag, auk þess sem að almenningssamgöngur á Írlandi munu falla niður vegna ofsaveðurs á Bretlandseyjum sem er sagt stefna lífi fjölda fólks í hættu.
Veðurstofur Írlands og Bretlands hafa gefið lægðinni nafnið Jóvin, eða Éowyn.
Mest þykir hættan á Írlandi, Norður-Írlandi og í Skotlandi þar sem lægðin gengur að líkindum yfir úr suðvestri og færist meðfram norðvesturströndum Írlands áður en hún fer til Skotlands.
Veðurstofa Írlands hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir alla eyjuna og er það í fyrsta skipti sem slík viðvörun er gefin út fyrir Norður-Írland frá því að viðvörunarkerfið var tekið upp árið 2011.
Nicholas Leach, nýdoktor í veður- og loftlagsfræðum við Oxford-háskóla, sagði í samtali við miðilinn Science Media Center að Jóvin væri líklegur til að valda miklum skaða. Til dæmis gætu tré fallið sem myndu gera akstursskilyrði mjög hættuleg.
Deildarforseti veðurfræðideildar háskólans við Reading sagði einnig líklegt að Jóvin myndi verða töluvert verri en stormarnir Eunice og Ciarán sem kostuðu nokkra lífið.