Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg hyggst hlaupa undir bagga og styrkja loftslagsstarf Sameinuðu þjóðanna eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin myndu draga sig úr Parísarsamkomulaginu í annað sinn.
Vill Bloomberg tryggja að rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verði áfram að fullu fjármagnaður þrátt fyrir að Bandaríkin stöðvi sínar greiðslur.
Bandaríkin hafa undanfarið fjármagnað 22% af loftslagsstarfi Sameinuðu þjóðanna en áætlaður kostnaður fyrir árin 2024 til 2025 er um 88,4 milljónir evra, eða um þrettán milljarðar íslenskra króna.
„Frá 2017 til 2020, á tíma aðgerðaleysis, risu borgir, ríki, fyrirtæki og almenningur upp og tókust á við það verkefni að uppfylla skuldbindingar þjóðar okkar og nú erum við að endurtaka leikinn,“ sagði Bloomberg sem er sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um metnað og lausnir í loftslagsmálum.
Þetta er í annað sinn sem Bloomberg hefur stigið inn í og fjármagnað stofnunina en í fyrra skiptið var árið 2017 eftir að Trump reyndi að draga Bandaríkin úr samkomulaginu.
„Framlög sem þessi eru nauðsynleg til að gera Sameinuðu þjóðunum kleift að styðja við lönd svo þau geti uppfyllt skuldbindingar sínar undir Parísarsáttmálanum og til að vinna áfram að minni útblæstri, seiglu og öruggari framtíð fyrir okkur öll.“