Sprenging við klúbbhús Bandidos í Svíþjóð

Sprengja sprakk í vörubifreið við klúbbhús Bandidos í Brandbergen í …
Sprengja sprakk í vörubifreið við klúbbhús Bandidos í Brandbergen í Haninge upp úr miðnætti í nótt, en þar var einnig gerð tilraun til að sprengja sprengju haustið 2023 og hlutu tveir sautján ára gamlir piltar dóma fyrir. Ljósmynd/Wikipedia.org/Embætti þjóðminjavarðar Svíþjóðar/Jan Augustsson

Öflug sprengja sprakk í grennd við klúbbhús vélhjólaklúbbsins Bandidos í iðnaðarhverfi í bænum Haninge, suður af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, upp úr miðnætti í nótt.

„Fólk, sem við höfum rætt við, var statt í húsinu,“ sagði Ola Österling, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, í samtali við ríkisútvarpið SVT í dag, en ekki er vitað til þess að nokkur hafi beðið líkamstjón þegar sprengjan sprakk.

Svo virðist sem sprengjan hafi sprungið í ökurými vörubifreiðar er stóð við bygginguna. „Mér er ekki kunnugt um það nákvæmlega hve mikið munatjón varð, en einhverjar skemmdir urðu á húsnæðinu,“ segir upplýsingafulltrúinn enn fremur.

Sprengjutilræði við klúbbhúsið 2023

Höggbylgja frá sprengingunni rauf múrvegg í húsnæðinu auk þess sem einhverjir innanstokksmunir eyðilögðust. Lokaði lögregla fyrir umferð um vettvang á meðan sprengjusveit fór yfir vettvanginn og kannaði meðal annars um hvers kyns sprengiefni var að ræða.

Ekki er lengra en ár síðan tveir sautján ára gamlir piltar hlutu dóma fyrir tilraun til að sprengja sprengju við þetta sama klúbbhús Bandidos haustið 2023. Réð ákæruvaldið það af skilaboðum í símum drengjanna að þeir hefðu verið á vegum Foxtrot-gengis hins kúrdísk-íraska Rawa Majid og gengið erinda hans við hið misheppnaða sprengjutilræði.

Þá var maður á fertugsaldri skotinn utan við húsnæðið í mars 2022 þrátt fyrir að sá hefði engin tengsl við glæpasamtök af nokkru tagi, hvorki Foxtrot né Bandidos. Taldi saksóknari í því máli að þar hefði skot geigað og hið raunverulega skotmark verið einn félaga Bandidos. Hlaut maður, sem þá var nítján ára gamall tíu ára fangelsi fyrir víg hins saklausa vegfaranda.

Í morgun hafði lögregla ekki enn haft hendur í hári neins vegna sprengingarinnar í nótt, en nánast samtímis henni sprakk önnur sprengja í Uppsala.

„Hluti af okkar starfi er að tengja þessa atburði við aðra er átt hafa sér stað um svipað leyti. Um slík tengsl er þó fullsnemmt að segja nokkuð á þessu stigi málsins,“ sagði Anna Westberg, sem einnig er upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, við SVT í dag.

SVT

SVT-II (sprengingin í Uppsala)

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert