Víðfeðmt rafmagnsleysi er á Írlandi þar sem ákafir og sterkir vindar lægðarinnar Jóvinjar hafa valdið umfangsmiklu og fordæmalausu tjóni á rafmagnsinnviðum landsins.
Ofsaveðrið gengur nú yfir Írland og Bretland en mest þykir hættan á Írlandi, Norður-Írlandi og í Skotlandi.
Í tísti írsku veðurstofunnar á X segir að áttatíu ára gamalt vindhviðumet við bæinn Foynes í Limerick-sýslu hafi fallið þegar vindhviða mældist yfir 50,5 metrum á sekúndu.
Hér má fylgjast með lægðinni ganga yfir.
Yfir 560 þúsund heimili, bóndabæir og fyrirtæki eru án rafmagns. Búast má við að fleiri heimili verði án rafmagns en lægðin gengur norður meðfram norðvesturströnd landsins.
Rauðar og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi fyrir allt landið og munu vera það fram eftir degi.
Má búast við að viðgerðir á rafmagnsinnviðum taki marga daga. Ekki verður hægt að leggja mat á tjónið fyrr en lægðin hefur gengið yfir.
Skólar, framhaldsskólar og háskólar verða lokaðir í dag, almenningssamgöngur falla niður og flestum læknisheimsóknum hefur verið frestað vegna lægðarinnar.
Þá hefur íbúum verið ráðlagt að vinna að heiman og halda sig þar ef hægt er.
Írska vegagerðin biðlar til almennings um að vera alls ekki á ferð á meðan „þetta fordæmalausa og lífshættulega“ ofsaveður gengur yfir.
„Þetta er ekki hefðbundinn veðuratburður – þetta hefur burði til að verða verulegt og sögulegt fárviðri sem stefnir lífi fólks í alvarlega hættu,“ sagði í viðvörun vegagerðarinnar í gær.