Sjöhundruð og fimmtán þúsund heimili eru án rafmagns á Írlandi eftir að ofsaveðrið Jóvin gekk þar yfir í nótt og í morgun.
Vindar sem lægðinni fylgja berja enn á eyjunni en miðja hennar er nú komin upp að Suðureyjum við vesturströnd Skotlands.
Tjón af völdum Jóvinjar á orkuinnviðum í landinu þykir fordæmalaust. Gætu sumir íbúar verið án rafmagns næstu vikuna.
Veðrið hefur aðeins tekið að róast í suðurhluta Írlands þar sem appelsínugular viðvaranir eru nú í gildi. Um miðbik og norðurhluta Írlands eru vindar enn ákafir og rauðar viðvaranir enn í gildi frá því snemma í nótt og morgun.
Hér má fylgjast með lægðinni ganga yfir Bretlandseyjar.
Í morgun féll áttatíu ára gamalt met þegar vindhviða mældist 51 metri á sekúndu.
Á myndum frá Írlandi má víða sjá fallin tré og gróður sem hefur fokið til. Þá hefur þak fokið af skautasvelli í bænum Blandchardstown.
Íbúum hefur verið ráðlagt að halda sig heima í dag, skólahald liggur niðri, margar verslanir Aldi og Lidl eru lokaðar og almenningssamgöngur liggja niðri. Búðarhillur standa margar tómar og augljóst að fólk hefur viljað birgja sig upp fyrir daginn.
Þá hefur um 230 flugferðum verið aflýst á alþjóðaflugvellinum í Dublin. Flightradar hefur í morgun birt upplýsingar um áhrif lægðarinnar á flug, eins og sjá má á tístinu hér að neðan.
Irish Independent greinir frá því að þetta sé versta ofsaveður frá árinu 1961 þegar tólf fórust í fellibylnum Debbie.
Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir alla eyjuna. Það er í fyrsta sinn sem það gerist frá því að viðvörunarkerfið var tekið í notkun árið 2011.
„Við notum rauðar viðvaranir aðeins fyrir verstu veðrin sem hafa í för með sér líklega hættu á mannskaða og miklum truflunum,“ sagði aðalveðurfræðingur bresku veðurstofunnar, Paul Gundersen, í yfirlýsingu í gær.
Rafmagnstruflanir eru í öllum sýslum Írlands en það mun hugsanlega taka marga daga að gera við skemmdir á innviðunum. Gætu sumir íbúar verið án rafmagns næstu vikuna.
Yfirmaður spádeildar írsku veðurstofunnar, Claire Byrne, lýsir storminum sem einstökum.
„Rauð viðvörun er enn í gildi fyrir meirihluta landsins en við höfum lækkað viðvörunarstigið í suðurhlutanum þar sem appelsínugular viðvaranir koma í stað rauðra. Síðan munu gular viðvaranir taka við.“