Óveðrið Jóvin hefur gert íbúum Írlands lífið leitt en aldrei hefur vindhraðinn mælst meiri í landinu frá því mælingar hófust. Mörg hundruð þúsund heimili eru án rafmagns, flugferðum hefur verið aflýst og skólum lokað.
Vindhraði í hviðum fór upp í 51 metra á sekúndu í dag. Þar með var 80 ára gamalt met slegið.
Krafturinn var slíkur að tré og rafmagnslínur féllu og lokuðu vegum. Þá jafnaðist skautahöll, sem er skammt frá höfuðborginni Dublin, við jörðu.
Mikill viðbúnaður hefur verið á Norður-Írlandi og í Skotlandi.
Þar hefur skólum einnig verið lokað auk þess sem ferjusiglingum, flugferðum og lestarferðum hefur verið aflýst.
Michelle O'Neill, forsætisráðherra Norður-Írlands, segir að veðrið sé hættulegt og geti ógnað lífi fólks og valdið tjóni.
Rauð veðurviðvörun hefur verið í gildi fyrir N-Írland í dag.
Talsmenn flugvallarins í Dublin greindu frá því að yfir 110 brottförum og jafnmörgum komum hefði verið aflýst í dag. Fyrsta brottför náðist þó um kl. 9.30 í morgun að staðartíma þegar vind tók aðeins að lægja.
Óveðrið hefur fært sig norður á bóginn með þeim afleiðingum að flugferðum á mörgum flugvöllum hefur verið aflýst, m.a. í Belfast í Norður-Írlandi og í Aberdeen, Edinborg og Glasgow í Skotlandi.