Vill komast hjá því að leggja toll á Kínverja

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vilja komast hjá því að leggja toll á innfluttar vörur frá Kína en fyrir embættistökuna sagði Trump ítrekað að hann vildi koma höggi á þennan keppinaut Bandaríkjanna með háum innflutningsgjöldum.

Í viðtali á bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox News var forsetinn spurður hvort hann gæti gert samning við kínverska leiðtogann Xi Jinping um Taívan og viðskipti.

„Ég get gert það vegna þess að við höfum eitthvað sem þeir vilja, við eigum pott af gulli. Við höfum eitt stórt vald yfir Kína, og það eru tollar, og þeir vilja þá ekki og ég vil helst ekki þurfa að nota þá,“ sagði Trump.

Talaði um allt að 60% toll

Eftir að Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna á ný í vikunni sagðist hann vera að íhuga að leggja 10 prósenta toll á innfluttar vörur frá Kína frá og með 1. febrúar og fyrir embættistökuna talaði hann um allt að 60 prósenta toll.

Í dag kölluðu stjórnvöld í Kína eftir því að Kínverjar og Bandaríkjamenn leystu ágreining sinn með samræðum og samráði.

„Efnahags- og viðskiptasamstarf Kína og Bandaríkjanna er hagstætt fyrir bæði ríki,“ segir Mao Ning, talskona utanríkisráðuneytis Kína, og bætir við að viðskipta- og tollastríð hafi enga sigurvegara og þjóni ekki hagsmunum ríkjanna eða hagsmunum heimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert