Lögreglan í austurumdæminu norska skaut í nótt mann á fimmtugsaldri í nauðvörn eftir að hann skaut að lögreglu við heimili sitt í íbúðahverfi þar í bænum. Fer rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu nú með rannsókn málsins svo sem ávallt er norskir lögreglumenn hleypa af skotvopnum sínum við skyldustörf.
„Ég var að festa svefn en heyrði þá bamm bamm bamm,“ segir kona sem búsett er í nágrenni við vettvang málsins í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Kveðst hún þegar hafa hringt í neyðarnúmer lögreglu og þá fengið þau svör að lögregluþjónar væru þegar á staðnum. Spurði neyðarsímavörður konuna í framhaldinu hvort hún hefði aðgang að kjallara og bað hana, er hún kvað já við, að fara þangað niður og halda sig þar uns haft yrði samband við hana.
Kveðst viðmælandinn hafa fundið til nokkurrar ónotakenndar vegna atburðarins.
Reyndist það hafa verið neyðarlínan AMK sem sendi lögreglu á vettvang upp úr miðnætti í nótt að norskum tíma og gekk þar erinda geðheilbrigðiskerfisins sem höfðu átt í samskiptum við manninn og töldu rétt að senda lögreglu á vettvang. Fékk lögregla upplýsingar um að maðurinn gæti verið vopnaður.
Voru lögregluþjónar lengi á vettvangi og höfðu, að sögn norsku fréttastofunnar NTB, verið þar í um þrjá klukkustundir þegar maðurinn dró fram skotvopn og skaut á lögregluþjónana. Finn Håvar Aas lögregluvarðstjóri ræddi við NRK í morgun og greindi frá því að lögregluþjónn á vettvangi hafi skotið á móti og hæft manninn.
„Hann sakaði ekki mikið og hlúði lögreglan að honum á vettvangi auk heilbrigðisstarfsfólks þar til hann var fluttur á sjúkrahús,“ sagði Aas við NRK.
Gaute Nilsen, sem skipaður hefur verið verjandi mannsins, kveðst lítið geta tjáð sig um málið þar sem skjólstæðingur hans sé enn á sjúkrahúsi. „Ég hef ekki fengið að ræða við hann enn þá svo ég veit ekki hver sakarafstaða hans er,“ segir Nilsen.
Lögregluþjónninn sem skaut manninn er einnig grunaður í málinu, en samkvæmt verklagi lögreglu hlýtur lögregluþjónn, sem hleypir af skotvopni við skyldustörf, sjálfkrafa stöðu grunaðs þar til rannsóknarnefndin í innri málefnum hefur rannsakað málið og tekið ákvörðun um hvort ákæra skuli eður ei.
Espen Henrik Johansen er verjandi lögregluþjónsins grunaða og kveðst hann ekki velkjast í vafa um að beiting skotvopns við skyldustörf í nótt hafi verið nauðsynleg til verndar lífi og heilbrigði annarra sem á vettvangi voru.
„Lögreglan hefur mjög vandað verklag með það fyrir augum að gæta hags hans frá því skoti er hleypt af. Hann fer þá í einangrun og á þess ekki kost að tjá sig um málið við aðra,“ segir Johansen og kveður skjólstæðinginn þegar hafa gefið rannsóknarnefndinni í innri málefnum skýrslu um atburði næturinnar.