Segja flóann nú Ameríkuflóa

Innanríkisráðuneyti Donalds Trump segir flóann nú heita Ameríkuflóa.
Innanríkisráðuneyti Donalds Trump segir flóann nú heita Ameríkuflóa. AFP/Mandel Ngan

Mexíkóflói heitir nú formlega Ameríkuflói. Eða svo segir að minnsta kosti innanríkisráðuneyti Donalds Trumps sem nýlega tók aftur við embætti forseta Bandaríkjanna. 

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir enn fremur að fjalltindurinn mikli í Alaska, Denali, héti nú formlega McKinley-fjall. 

Nafnabreytingarnar eru hluti af fyrstu forsetatilskipunum Trumps eftir að hann tók aftur við embættinu á mánudag. Ræddi hann nafnabreytingarnar í innsetningarræðu sinni.

Fréttaveitan Reuters greinir svo frá að Trump geti réttilega breytt nafni flóans á skrá Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar, þá þyki ólíklegt að breytingin verði tekin upp á alþjóðavísu. 

Stjórnvöld í Mexíkó hafa síðan á mánudag bent á að Mexíkóflói hafi verið þekktur undir því nafni lengi og það nafn notað á siglingakortum í fleiri hundruð ár.  

Fjalltindurinn mikli hét áður McKinley-fjall, eftir William McKinley, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, en var nefndur Denali árið 1975 að ósk Alaska-ríkis. Þýðir Denali „hátt“ á tungu Kouyukon-frumbyggjanna. 

„Þessar breytingar endurspegla heit þjóðarinnar um að varðveita hina merkilegu arfleifð Bandaríkjanna og tryggja að framtíðarkynslóðir Bandaríkjanna muni heiðra hetjur og sögulega staði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert