Þrjú ungmenni eru látin eftir að bifreið þeirra fór út af vegi í Vestur-Yorkshire á Englandi um klukkan 20:30 í gærkvöldi að staðartíma þar, nærri þorpinu West Bretton.
Fjórir farþegar auk ökumanns voru í bifreiðinni, sem er af gerðinni Seat Ibiza, og lést ökumaðurinn, 18 ára, ásamt tveimur 19 ára gömlum farþegum á vettvangi slyssins. Annar þeirra farþega, sem enn eru ótaldir, liggur á sjúkrahúsi með lífshættulega áverka en hinn slapp með minni áverka.
„Þetta er hörmulegt slys sem kostað hefur þrjú mannslíf auk þess sem fjórði maður er lífshættulega slasaður,“ er haft eftir James Entwistle, yfirlögregluþóni lögreglunnar í Vestur-Yorkshire, á vefsíðu lögreglunnar og vísa breskir fjölmiðlar margir hverjir í þau ummæli.
Kveður Entwistle hug lögregluliðsins hjá þeim fjölskyldum sem nú eigi um sárt að binda í kjölfar slyssins og hvetur ökumenn með mælaborðsmyndavélar til að hafa samband við lögreglu hafi þeir verið í námunda við vettvang og myndavélar þeirra náð einhverju á upptöku sem nýst geti við rannsókn slyssins.
„Umferðarslysarannsóknarteymi okkar skoðar nú kringumstæður á vettvangi banaslyssins og ég hvet alla, sem gætu hafa séð til bifreiðarinnar eða átt upptöku sem gæti varpað einhverju ljósi á málið, til að setja sig í samband við okkur,“ sagði yfirlögregluþjónninn.