Játning eftir sjö ár

Rita Helen Vigdal féll í sjóinn í Svolvær í september …
Rita Helen Vigdal féll í sjóinn í Svolvær í september 2016 og lá við drukknun. Hún lést á Nordlandssykehuset í mars árið eftir af völdum heilaskaða í kjölfar alvarlegra mistaka er gerð voru á bráðamóttöku við komu hennar þangað og segir ekkillinn það þversagnakennt að hún hafi lifað mesta háskann af, en látist svo vegna handvammar starfsfólks bráðamóttökunnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ritu Helen Vigdal, tannlækni frá Vefsn í hinu norska Nordland-fylki, varð ekki nema 55 ára auðið. Eiginmaður hennar, Rune Vigdal, var með henni þegar hún féll í hafið í Svolvær í september árið 2016 og lá við drukknun. Var hann á meðal þeirra sem björguðu tannlækninum á land og var Vigdal flutt með hraði á Nordlandssykehuset í Bodø.

Þar lést hún, þó ekki fyrr en 18. mars 2017, hálfu ári eftir slysið í Svolvær. Sjö ár liðu þar til stjórnendur sjúkrahússins viðurkenndu í fyrra að þar hefðu lög verið brotin og dauði Ritu Vigdal væri sök starfsfólks þar. Mistök sem gerð voru á bráðamóttöku sjúkrahússins leiddu til þess að sjúklingurinn kafnaði nánast í eigin uppköstum eftir að starfsfólki þar tókst ekki að koma kokrennu fyrir svo öndun Vigdal væri tryggð. Olli handvömm starfsfólks bráðamóttökunnar heilaskaða er dró Vigdal til dauða.

Árum saman gekk Rune Vigdal frá Heródesi til Pílatusar og barðist fyrir því að opinber rannsókn færi fram og að stjórnendur sjúkrahússins öxluðu ábyrgð sína.

„Rákumst á vegg af lögfræðingum“

„Þegar það er algjörlega ljóst að það er sjúkrahúsið sem ber ábyrgðina og sökina á því sem gerðist og það vill ekki viðurkenna það, þá færðu engan frið fyrr en málinu er lokið. Það er bara að fá frið sem var takmarkið,“ segir Vigdal við norska ríkisútvarpið NRK.

„Sem aðstandandi hef ég staðið í þessu einn, sjúkrahúsið hefur ekki lyft litlafingri okkur til hjálpar – bara neitað öllu [...] við rákumst á vegg af lögfræðingum,“ segir hann enn fremur og bætir því við að það sé þversagnakennt að eiginkona hans hafi lifað af það sem háskalegast var, að falla í sjóinn og vera við það að drukkna. Það hafi hún lifað af, en á sjúkrahúsinu hafi allt farið í handaskolum.

Nú hafa tvær skýrslur fylkismannsins í Nordland slegið því föstu að á sjúkrahúsinu hafi fjöldi lögbrota átt sér stað við meðhöndlun tannlæknisins frá Vefsn. Staðfesta skýrslurnar að við komu á bráðamóttöku hinn örlagaríka septemberdag árið 2016 hafi starfsfólk þar ekki veitt Ritu Vigdal þá meðferð sem forsvaranleg teldist auk þess sem aðstandendur hennar hafi ekki fengið lögboðna eftirfylgni starfsfólks sjúkrahússins.

Lést af völdum heilaskaða

Úrskurður í kjölfar ítarlegrar rannsóknar sem loks var framkvæmd er einfaldur: Rita Vigdal lést af völdum heilaskaða er til kom vegna súrefnisskorts í kjölfar stórfellds gáleysis starfsfólks á bráðamóttöku Nordlandssykehuset.

Aðstandendur Vigdal hafa nú fengið bætur greiddar úr ríkissjóði og það var í mars í fyrra, réttum sjö árum eftir að hún lést á sjúkrahúsinu, sem afsökunarbeiðni barst frá nýjum forstjóra sjúkrahússins er þá hafði tekið við, Siri Tau Ursin, áður yfirlækni á gjörgæsludeild Háskólasjúkrahússins í Stavanger.

„Mér hrýs hugur við því að aðrir lendi í þessu, …
„Mér hrýs hugur við því að aðrir lendi í þessu, fólk sem ef til vill er ekki jafn þrjóskt og staðfast og ég,“ segir Rune Vigdal við NRK. Árum saman barðist hann fyrir því að draga sök sjúkrahússins fram í dagsljósið og það tókst honum að lokum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Nordlandssykehuset viðurkennir að mistök áttu sér stað í tengslum við þá meðferð sem Ritu Helen Vigdal var veitt í kjölfar drukknunar í september 2016, nánar tiltekið í tengslum við tilraun til að koma kokrennu fyrir á bráðamóttöku sem sjúkrahúsið kannast eftir á að hyggja við að framkvæma hefði átt öðruvísi. Við biðjum aðstandendur innilegrar afsökunar,“ segir í erindi sjúkrahússins sem þau Ursin áðurnefnd og Eystein Præsteng Larsen yfirráðgjafi undirrita í sameiningu. Segir að lokum um niðurstöðu rannsóknarinnar sem að lokum fór fram:

„Rita Vigdal lést af völdum heilaskaða vegna súrefnisskorts við tilraun til að koma kokrennunni fyrir á bráðamóttökunni.“

„Hefði þetta verið einkarekið sjúkrahús með fjárhagslega hagsmuni að veði hefði maður skilið mótstöðuna. En hér er sjúkrahús sem sinnir öllum íbúum Nordland,“ segir Rune Vigdal við NRK og er að lokum spurður hvort viðurkenning sjúkrahússins sé honum huggun.

„Já, hún er það,“ svarar ekkillinn.

NRK

NRK-II (Rune Vigdal höfðar mál árið 2021)

NRK-III (stjórnendur sjúkrahússins neita að sakfella sjálfa sig)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert