Meintur raðkanínumorðingi

Kanínur hafa verið í vandræðum á japönsku eyjunni Okunoshima.
Kanínur hafa verið í vandræðum á japönsku eyjunni Okunoshima. Mbl.is/Þorkell

Maður nokkur var handtekinn fyrir að sparka í kanínu á eyjunni Okunoshima í Japan í vikunni en hún er þekkt er fyrir stórt og myndarlegt kanínusamfélag, að sögn AFP. Leika þær víst lausum hala og ferðamenn hafa yndi af því að gefa þeim að éta, ef marka má vefsíðu eyjunnar. Dýrið drapst af sárum sínum.

Maðurinn, sem hefur verið nafngreindur, Riku Hotta, er 25 ára og lögregla rannsakar nú hvort hann tengist dauða 77 kanína en hræ þeirra hafa fundist á eynni síðan í nóvember. „Dánarorsök gæti verið smitsjúkdómur, kuldi eða af mannavöldum, við vitum það ekki fyrir víst enn,“ sagði talsmaður umhverfisráðuneytisins í vikunni, áður en Hotta var tekinn höndum. „Við erum að rannsaka málið í samstarfi við dýralækna og viðeigandi stofnanir um leið og við höfum hert eftirlit.“

Eiturgasverksmiðja var starfrækt á Okunoshima í seinni heimsstyrjöldinni en þar er nú safn að finna. Yfirvöld þar um slóðir hafa freistað þess að laða til sín nýja íbúa með því að benda á það hversu duglegar kanínurnar eru að fjölga sér. Eða eins og segir á téðri vefsíðu: „Þetta er staður sem hefur góð áhrif á frjósemina.“

Fleiri fréttir úr dýraríkinu má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert