Pelicot yfirheyrður vegna óupplýstra mála

Dominique Pelicot á leið í yfirheyslu í dómshúsi í dag …
Dominique Pelicot á leið í yfirheyslu í dómshúsi í dag í fylgd lögreglu. AFP/Dimitar Dilkoff

Dom­in­ique Pelicot, sem dæmd­ur var í tutt­ugu ára fang­elsi í des­em­ber fyr­ir að hafa byrlað þáver­andi eig­in­konu sinni ólyfjan, nauðgað henni og leyft tug­um manna að gera slíkt hið sama í rúm­an ára­tug, var ný­lega yf­ir­heyrður vegna rann­sókn­ar tveggja óupp­lýstra mála frá tí­unda ára­tugn­um.

Annað málið varðar nauðgun og mann­dráp í Par­ís árið 1991 og hitt varðar til­raun til nauðgun­ar í Seine-et-Mar­ne-héraði árið 1999.

Pelicot játaði sök í síðar­nefnda mál­inu en neitaði aðild að mann­dráp­inu og nauðgun­inni í Par­ís.

Be­atrice Za­varro lög­fræðing­ur Pelicot sagði rann­sókn­ina á mann­dráp­inu hafa staðið yfir síðan í októ­ber 2022 og að Pelicot hefði þegar verið yf­ir­heyrður í októ­ber 2023.

Lögfræðingurinn Beatrice Zavarro segir rannsóknina, sem tileinkuð er óupplýstum málum, …
Lög­fræðing­ur­inn Be­atrice Za­varro seg­ir rann­sókn­ina, sem til­einkuð er óupp­lýst­um mál­um, hafa staðið yfir síðan í októ­ber 2022. AFP/​Bertrand Guay

Lík­indi í mál­un­um tveim­ur

Um nauðgun­ar­tilraun­ina frá ár­inu 1999 sagði Pelicot: „Það var sann­ar­lega ég. Ég tók hana úr stutterma­boln­um, skón­um og bux­un­um en ég gerði ekki neitt.“

Hann sagðist þó vera alsak­laus í máli Sophie Nar­me, fast­eigna­sal­ans sem var nauðgað og myrt í Par­ís árið 1991.

„Ég hef ekk­ert með það mál að gera,“ sagði hann, þrátt fyr­ir lík­indi í mál­un­um en bæði fórn­ar­lömb­in voru 23 ára fast­eigna­sal­ar. Báðar kon­urn­ar voru heim­sótt­ar af manni sem villti á sér heim­ild­ir til að skoða hjá þeim íbúð. Þá voru kon­urn­ar tvær einnig af­klædd­ar að neðan á sama hátt.

Sterk lykt var af svæf­ing­ar­lyf­inu eter, sem notað er í skurðaðgerðum, á vett­vangi glæps­ins gegn Nar­me, sama efni og notað var til að ráðast á ungu kon­una árið 1999.

„Ég var með litla flösku af eter í bíln­um og stutt band,“ sagði hann um nauðgun­ar­tilraun­ina.

„Hélt að þetta gæti hafa verið dótt­ir mín“

Aðspurður hvers vegna hann flúði vett­vang svaraði hann: „Ég var með mein­loku og hélt að þetta gæti hafa verið dótt­ir mín.“

Carol­ine Dari­an dótt­ir Pelicot er í dag 46 ára en hef­ur á þeim tíma verið rúm­lega tví­tug.

Eft­ir að hafa séð mynd­ir af meðvit­und­ar­laus­um lík­ama sín­um, klædd­um nær­föt­um sem hún þekkti ekki, tel­ur Dari­an föður sinn hafa byrlað sér ólyfjan og nauðgað sér. Mynd­irn­ar fund­ust meðal ít­ar­legra skráa sem faðir henn­ar hélt um glæpi sína.

Sagði hún ný­lega að Pelicot „ætti að deyja í fang­elsi“ þar sem hann væri „hættu­leg­ur maður“.

Skissa af Dom­in­ique Pelicot í rétt­ar­höld­un­um.
Skissa af Dom­in­ique Pelicot í rétt­ar­höld­un­um. AFP/​Benoit Peyrucq

Vek­ur ótta um aðra glæpi

Rúm 30 ár eru síðan fyrsti glæp­ur­inn, sem Pelicot neit­ar sök fyr­ir, var fram­inn. 

Hef­ur sú staðreynd vakið ótta um að Pelicot gæti hafa framið fleiri kyn­ferðis­glæpi á tíma­bil­inu.

Gisele Pelicot, fyrr­ver­andi eig­in­kona hans, hef­ur verið hyllt sem hetja fyr­ir hug­rekki sitt og reisn í rúm­lega þriggja mánaða rétt­ar­höld­um. Þeim lauk í des­em­ber og voru all­ir sak­born­ing­ar, sem voru 51 tals­ins, dæmd­ir sek­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert