Minnst sjö eru látnir eftir að tveggja hreyfla sjúkraflugvél hrapaði í norðausturhluta Fíladelfíu í Bandaríkjunum rétt eftir klukkan 18 í gær að staðartíma eða klukkan 23 að íslenskum tíma. Eldur kviknaði í nærliggjandi húsum og bifreiðum við slysstað. AFP-fréttastofan greinir frá.
Sex voru um borð í flugvélinni; stúlka á barnsaldri, móðir hennar, flugmaður, aðstoðarflugmaður, læknir og sjúkraliði og létust þau öll. Stúlkan hafði sótt læknisþjónustu í Fíladelfíu og var á leið heim til Mexíkó. Fólkið var allt mexíkóskir ríkisborgarar.
Þá er einnig staðfest að einn einstaklingur lést á jörðu niðri, en hann var í bíl sínum þegar vélin hrapaði til jarðar í þéttbýlu hverfi í Fíladelfíu.
19 eru sagðir slasaðir en ekki hefur enn tekist að staðsetja alla þá sem voru á svæðinu í gær. Það gætu því liðið einhverjir dagar þangað til endanleg tala látinna og slasaðra liggur fyrir.
Flugvélin var á leið til Springfield-Branson-flugvallarins í Missouri. Þar var á áætlun að taka eldsneyti til að halda áfram til borgarinnar Tijuana í Mexíkó.