„Í október gróf safnið upp stólpaholu með því stóra vopnasafni sem við áður höfum sagt frá,“ segir Dorthe Horn Christensen, fornleifafræðingur við Vejlemuseerne, í samtali við mbl.is, danskt safn með tíu útibú og nokkur mismunandi viðfangsefni, en í þessu tilfelli talar Christensen fyrir hönd menningarminjasafns samsteypunnar.
Fjallað var um það í Morgunblaðinu og hér á mbl.is í nóvember að heill bær frá 5. öld eftir Krists burð hefði þá nýverið fundist við breikkunarframkvæmdir E45-brautarinnar skammt frá bænum Hedensted á Austur-Jótlandi. Vakti þar heilt vopnabúr verðskuldaða athygli fornleifafræðinganna – 1.600 ára gömul vopn sem gert hefðu her manns gráan fyrir járnum. Um það allt saman má lesa handan þessa tengils:
Segir Christensen mbl.is í þessu spjalli af óásjálegum járnplötum er legið hefðu innan um allan vopnabúnaðinn, nokkuð ótótlegar að sjá. „Þær virtust nú ekki merkilegar, komu helst fyrir sjónir eins og eitthvert ryðgað drasl,“ segir Christensen og kveður plöturnar hafa vakið forvitni fyrir þær sakir að vera það eina í þessari tilteknu holu sem ekki tengdist stríðsrekstri með einhverjum hætti.
Það hafi svo fyrst verið eftir að þau samstarfsfólk hennar við uppgröftinn fengu röntgenmyndir af plötunum torkennilegu sem annað fór að koma á daginn en að um rusl væri að ræða. „Á einni plötunni birtust mjög fíngerðar skreytingar meðfram kantinum. Myndin sýndi líka hina raunverulegu lögun plötunnar og þá rann það upp fyrir okkur hvað við í raun vorum með í höndunum. Og það var algjörlega villt,“ segir fornleifafræðingurinn og dregur hvergi úr.
Plöturnar óhrjálegu reyndust vera hlutar rómversks herhjálms. „Þetta var eitthvað sem við höfðum verið að grínast með að væri magnað að finna,“ segir Christensen. „Hann Elias, sem er stjórnandi verkefnisins, sendi mér röntgenmyndirnar um helgi og ég fékk bara í magann þegar ég leit á þær,“ heldur fræðikonan áfram og fær ekki dulið hinn brennandi áhuga fornleifafræðingsins, sem að mati blaðamanns er ein alskemmtilegasta starfsstétt mannlegra samfélaga í viðtölum – á þeim vettvangi er hjarta og sál alltaf með í spjallinu.
„Ég held ég hafi bara sagt við Elias „andskotinn andskotinn andskotinn, þetta er hjálmur! Veistu hvað þetta er sturlað?“ og ég táraðist bara af gleði. Ég get alveg sagt þér að við biðum með að greina frá þessu opinberlega þar til við höfðum fengið það staðfest að þetta mun fara á topp tíu lista Minjastofnunar yfir merkisfundi ársins 2024,“ rifjar Christensen upp af fundinum í október sem legið hefur í þagnargildi þar til nú.
Plöturnar reyndust vera hnakkaplata og kinnplata rómversks herhjálms frá 4. öld og útskýrir Christensen hvers vegna aðeins hlutar hjálmsins eru til staðar með því að á þessum fyrstu öldum heimsbyggðarinnar sem taldar eru frá fæðingu Krists hafi þær herfylkingar, sem sigur höfðu í orrustum, gjarnan fórnað búnaði þeirra er halloka fóru og þeim athöfnum hafi sjaldan lyktað með því að andlag fórnanna væri í heilu lagi á eftir.
„Við vitum auðvitað ekki hvernig hjálmur frá rómverska heimsveldinu hefur endað hér á miðju Jótlandi, en setja mætti fram þá tilgátu að í hernum sem tapaði orrustunni hafi verið hermaður sem gegndi þjónustu sem íhlaupahermaður [d. hjælpetropper] í her Rómarveldis. Hjálmurinn gæti líka verið ránsfengur,“ nefnir Christensen sem mögulega skýringu á atburðarás fyrir hátt í tvö þúsund árum. Vandi er um slíkt að spá.
Hún segir fundinn á Jótlandi algjörlega einstakan, ekki bara hvað Danmörku snertir heldur Suður-Skandinavíu alla. „Það er svo sjaldgæft að við finnum leifar af byggð þar sem vopnum hefur verið fórnað. Slíkt finnst oftar í tengslum við fórnir í mýrum. Það sem er algengara er að við finnumílát í stólpaholum húsanna sem við gröfum upp, þau höfum við líka fundið hér,“ segir hún af vettvangi þorpsins við Hedensted.
Sú fórnarmenning, eða aðferðafræði, sem Christensen og samstarfsfólk hennar sjái á fundarstöðum í mýrum sé nánast einsleit því sem nú hafi fundist við uppgröftinn á Jótlandi. „Það sem er einstakt hér er sú mynd sem við fáum af þeim sem valdið höfðu. Hér höfum við fórnargripina frá sigruðum her og hús sigurvegaranna,“ útskýrir Christensen. Magn og gerð þeirra vopna sem fundist hafi segi fornleifafræðingunum að á svæðinu hafi annaðhvort verið her með gríðarmikinn búnað eða þar hafi stórhöfðingi búið.
Og hvernig er sú upplifun eiginlega að vera fornleifafræðingur í tímamótafundi á borð við þennan?
„Þetta er algjörlega geðveikt,“ svarar Christensen einfaldlega, „Det er fuldstændig vanvittig,“ upp á dönsku. „Það er virkilega erfitt að trúa því að maður hafi verið svo heppinn að vera fyrst í Danmörku til að uppgötva rómverskan hjálm af þessari gerð auk þess sem ég veit ekki betur en að hér sé kominn elsti járnhjálmur sem nokkru sinni hefur fundist í Danmörku,“ heldur hún áfram af fundarstaðnum við Hedensted.
„Ég sem hélt að hringabrynjan hefði verið hápunktur ferils míns af því að hlutar af hringabrynjum hafa aðeins fundist fjórtán sinnum í Suður-Skandinavíu og sú sem við fundum var sú fyrsta sem fannst í byggð,“ segir safnakonan og á við þá byggð sem þorpið uppgrafna frá 5. öld er.
„En að finna þennan hjálm, það toppar bara allt,“ segir Dorthe Horn Christensen, fornleifafræðingur við Vejlemuseerne, að lokum við mbl.is með svo fölskvalausri gleði sem mest má vera.