Bretland verður líklega fyrsta landið til að setja lög gegn gervigreindarforritum sem notuð eru til að búa til myndir af kynferðisofbeldi gegn börnum.
Verður þá ólöglegt að eiga, búa til eða dreifa gervigreindarforritum sem hönnuð eru í þeim tilgangi að búa til kynferðislegar myndir af börnum. Verður það refsivert með allt að fimm ára fangelsi, að sögn Yvette Cooper innanríkisráðherra Bretlands.
Ólöglegt verður einnig að eiga svokallaðar handbækur sem kenna fólki hvernig nota megi gervigreind til að misnota börn kynferðislega, verður það refsivert með allt að þriggja ára fangelsi.
„Þetta er raunverulegt, óhuggulegt, fyrirbæri. Efni tengt kynferðisofbeldi fer vaxandi á netinu, en líka undirbúningur (e. grooming) barna og unglinga á netinu. Það sem er að gerast núna er að gervigreind er að setja þetta á stera,“ sagði innanríkisráðherrann við Sky News.
Þá sagði hún þessi gervigreindarforrit auðvelda gerendum að undirbúa börn, en þeir geti líka breytt myndum af börnum og notað þær síðan til að tæla þau og kúga til frekari misnotkunar. Nýju lögin muni banna slík forrit.
„Þetta eru viðurstyggilegustu glæpirnir,“ bætti hún við.
Þá segist innanríkisráðherrann vona að önnur lönd taki Bretland til fyrirmyndar og setji slík lög.
Að sögn bresku ríkisstjórnarinnar eru umrædd gervigreindarforrit notuð til að búa til myndir af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum með því að „nekta“ raunverulegar myndir af börnum eða með því að setja andlit barna á klámfengnar myndir.
Nýju lögin muni einnig refsa þeim er reka vefsíður þar sem barnaníðingar deila efni af kynferðislegu ofbeldi gegn börnum eða ráðleggingum um hvernig eigi að undirbúa börn.
Segir innanríkisráðherrann nýlega rannsókn hafa leitt í ljós að um 500.000 börn víðs vegar um Bretland séu á einhvern hátt fórnarlömb barnaníðinga á hverju ári, og að þáttur netsins sé vaxandi hluti af vandamálinu.
Samtök er vinna meðal annars að því að bera kennsl á og fjarlægja myndir af kynferðisofbeldi á netinu (IWF) hafa varað við auknum fjölda klámfenginna gervigreindarmynda af börnum.
Árið 2024 greindu sérfræðingar IWF gervigreindarmyndir af börnum á ónefndri vefsíðu. Á 30 daga tímabili greindust 3.512 myndir. Að sögn IWF fjölgaði myndum í alvarlegasta myndaflokknum um 10 prósent á ári.