Donald Trump og Justin Trudeau tilkynntu í kvöld að innleiðingu tolla á innfluttar vörur frá Kanada til Bandaríkjanna yrði frestað um 30 daga. Í staðinn hyggjast yfirvöld í Kanada beita sér í ríkara mæli fyrir því að fíkniefni komist ekki um landamæri landanna og inn í Bandaríkin.
„Kanada hefur samþykkt að tryggja norðurlandamærin,“ ritar Trump á samfélagsmiðilinn Truth social, sem er í hans eigu.
Enn fremur segir Trump að Trudeau hafi samþykkt að verja um 1,3 milljörðum bandaríkjadala í að efla landamæragæsluna. Sérstaklega er stefnt að því að tryggja að fentaníl komist ekki inn í gegnum landamærin en Trump hefur verið tíðrætt um skaðsemi efnisins fyrir samfélagið. Þá segir hann Kanadamenn hafa samþykkt að setja eiturlyfjahringi á lista yfir hryðjuverkamenn.
Segir Trump að næstu þrjátíu dagar verði nýttir til þess að tryggja að samningur þjóðanna í milli muni verða báðum þjóðum ásættanlegur. Að öðrum kosti verði tollar settir á vörur frá Kanada líkt og fyrri áform voru uppi um.