Úkraínskir hermenn teknir af lífi

Mótmælendur á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði bera skilti með áletrunum á …
Mótmælendur á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði bera skilti með áletrunum á borð við „Okkar fólk er ekki komið heim enn þá!“ 18. janúar á samkomu þar sem athygli var vakin á stöðu úkraínskra hermanna í haldi Rússa sem fátt væri vitað um eftir að þeir voru teknir höndum. AFP/Tetiana Dzhafarova

Sameinuðu þjóðirnar greindu í dag frá því að aftökum úkraínskra hermanna í haldi Rússa hefði fjölgað jafnt og þétt síðustu mánuði og koma þær upplýsingar heim og saman við ásakanir embættismanna í Kænugarði á hendur Rússum um stríðsglæpi.

Þær ásakanir hafa raunar gengið á báða bóga þar sem Rússar hafa brigslað Úkraínumönnum um það sama, það er að taka fanga úr röðum rússneska innrásarliðsins af lífi.

Eftir því sem Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu, UN Human Rights Monitoring Mission in Ukraine, greinir frá hefur starfsfólk hennar vitneskju um 79 tilfelli þess að Rússar taki úkraínska stríðsfanga af lífi frá ágústlokum í 24 aðgerðum.

Kröfur ýti undir hættuna

„Þessi atvik urðu ekki í neinu tómarúmi,“ segir Danielle Bell, yfirmaður eftirlitsskrifstofunnar í Úkraínu, í yfirlýsingu. „Opinberar persónur í Rússlandi hafa sérstaklega krafist ómannúðlegrar meðferðar, jafnvel aftakna, á úkraínskum hermönnum.“ Segir enn fremur í yfirlýsingunni að slíkar kröfur ýti undir hættuna á brotum gegn mannúðarlöggjöf.

Í yfirlýsingunni kom einnig fram að skrifstofan hefði skráð eitt tilfelli í fyrra þar sem úkraínskir hermenn hefðu tekið „særðan og óbardagahæfan“ rússneskan hermann af lífi.

Umboðsmaður mannréttindamála í Úkraínu, Dmítró Lúbínets, tilkynnir reglulega að hann hafi beiðst þess af Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðaráði Rauða krossins að rannsókn verði framkvæmd á þeim tilfellum þar sem úkraínskir hermenn í haldi hafi verið teknir af lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert