Borgarar allra Norðurlandanna eru skráðir á lista bandarískra stjórnvalda yfir fólk sem hefur verið gert að yfirgefa Bandaríkin og fréttastofa Fox News hefur opinberað, en mbl.is fjallaði um lista þennan í gær. Fimm íslenska ríkisborgara er að finna á listanum.
Fréttaritari norska Dagbladet í New York fjallar um listann í dag og skrifar að strangari stefna gagnvart innflytjendum og brottvísun milljóna þeirra hafi verið meðal helstu kosningaloforða Donalds Trumps, nú Bandaríkjaforseta, í kosningabaráttu hans í fyrra. Frá því hann tók við völdum 20. janúar hafi bandarísk innflytjendayfirvöld brett upp ermarnar í leit sinni að pappírslausum innflytjendum
Listinn frá innflytjendaeftirlits- og tollgæslustofnuninni U.S. Immigration and Customs Enforcement, eða ICE, sem mbl.is fjallaði um í gær er þó frá 24. nóvember.
Af Norðurlandabúum á listanum eru, svo sem hér var fjallað um í gær, fimm íslenskir ríkisborgarar, en aðrir norrænir ríkisborgarar þar eru 39 Norðmenn, 120 Svíar, 22 Finnar og 45 Danir. Nær listinn yfir 1.445.549 erlenda borgara og má sjá þar býsna háar tölur frá Mið- og Suður-Ameríku. Tók mbl.is nokkrar hæstu tölurnar saman í viðhlekkjaðri frétt í gær.
Brasilía (38.677), Kína (37.908), Kúba (42,084), El Salvador (203.822), Gvatemala (253.413), Hondúras (261.651), Níkaragva (45.995) og Mexíkó (252.044).
Einhverju hefur átak ICE, sem hófst upp úr því er Trump sór embættiseið, skilað þar sem síðan hafa 7.400 ólöglegir innflytjendur verið handteknir á níu dögum, þar af sjö starfsmenn bílaþvottastöðvar í borginni Philadelphia í síðustu viku, eftir því sem Fox greinir frá.