Boðað til kosninga í Grænlandi

Múte B. Egede forsætisráðherra Grænlands.
Múte B. Egede forsætisráðherra Grænlands. AFP/Claus Rasmussen/Ritzau Scanpix

Búið er að boða til þingkosninga í Grænlandi, sjálfstjórnarsvæði Dana. Kosningarnar fara fram í næsta mánuði, eða þann 11. mars. Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, sækist eftir endurkjöri og segir hann landið vera að ganga í gegnum fordæmalausa tíma. 

Síðustu vikur hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sóst eftir því að festa kaup á landi Grænlendinga sem hefur fallið í grýttan jarðveg á meðal heimamanna. Sagði Trump meðal annars að hann myndi mögulega beita hervaldi til að ná Grænlandi á sitt vald.

Grænlenska þingið samþykkti í dag lög sem banna erlenda eða nafnlausa styrki til stjórnmálaflokka. 

„Það eru alvarlegir tímar í gangi. Tími sem við höfum aldrei upplifað áður, þetta er ekki tími fyrir innri átök,“ sagði Múte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands í færslu á samfélagsmiðlum í dag. 

Kosið er til grænlenska þingsins, Inatsisartut, á fjögurra ára fresti. Síðustu fjögur árin hefur miðjuflokkurinn Inuit Ataqatigiit farið með meirihluta á þinginu. Alls er kosið um 31 þingmann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert