Fimm skotnir við skóla í Svíþjóð

Lögregluþjónar fyrir utan Risbergska-skólann í Örebro nú fyrir skömmu.
Lögregluþjónar fyrir utan Risbergska-skólann í Örebro nú fyrir skömmu. AFP/Kicki Nilsson

Að minnsta kosti fimm manns hafa verið særðir í skotárás við skóla í sænsku borginni Örebro.

Mikill viðbúnaður lögreglu er við skólann og hefur þyrla einnig verið kölluð út til aðstoðar við aðgerðir.

Að sögn lögreglu er nemendum í öðrum skólum í nágrenninu haldið inni vegna árásarinnar.

Fréttamyndir frá vettvangi sýna mikinn viðbúnað lögreglu og sjúkrabíla. 

Fólk beðið um að halda sig fjarri

„Ekki liggur fyrir hversu alvarlega fólkið er sært. Aðgerðir standa yfir,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni. Hún tekur fram að enginn lögreglumaður hafi særst á árásinni. 

Þá segir lögreglan að málið sé rannsakað sem morðtiltraun, íkveíkju og vopnalagabrots. 

Fólk er beðið um að halda sig fjarri skólanum og halda sig innandyra.

Lögreglubifreið í nágrenni við Risbergska-skólann í Örebro í Svíþjóð.
Lögreglubifreið í nágrenni við Risbergska-skólann í Örebro í Svíþjóð. AFP/Kicki Nilsson

Boðað til blaðamannafundar

Lögreglan hefur boðað til blaðamannaafundar kl. 14:30 að íslenskum tíma. 

Sænska götublaðið Expressen heldur því fram að árásarmaðurinn hafi tekið eigið líf en lögreglan hefur ekki viljað staðfesta þá frásögn. 

Í umfjöllun Expressen og í Aftonbladet kemur einnig fram að skotið hafi verið á lögreglumenn á vettvangi.

Segjast hafa heyrt í hríðskotarbyssu

Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir málið vera mjög alvarlegt. 

„Ríkisstjórnin á í nánum samskiptum við lögregluna og fylgist grannt með gangi mála,“ sagði Strömmer í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Haft er eftir sjónarvottum í nokkrum sænskum fjölmiðlum að þeir hafi heyrt í hríðskotarbyssu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert