Sænska ríkisútvarpið, SVT, kveðst hafa upplýsingar undir höndum um að nokkrir hafi látist í skotárásinni í Risberska-háskólann í Örebro í Svíþjóð og að um 15 hafi særst.
Lögreglan hefur aftur á móti ekki viljað staðfesta það. Fram kom á blaðamannafundi nú síðdegis að fimm hafi verið fluttir á slysadeild og að einn hafi verið í lífshættu.
Roberto Eid Forest, lögreglustjórinn í Örebro, sagði á fundinum í dag að mögulega væri árásarmaðurinn, sem er karlmaður, einn þeirra sem fundust með skotsár á vettvangi.
Mikill viðbúnaður hefur verið vegna málsins og fjölmennt lögreglu- og sjúkralið fór á vettvang. SVT segir að lögreglan hafi beðið íbúa í Västhaga um að halda sér innandyra.
Petra Lundh, ríkislögreglustjóri Svíþjóðar, segir í yfirlýsingu að alvarleg árás hefði átt sér stað í Örebro í dag. Hún segir hug allra vera hjá þeim sem særðust og fjölskyldum þeirra. Lundh segir að unnið sé að því að tryggja öryggi allra íbúa á svæðinu.
Lögreglan greindi frá því fyrr í dag að nokkrir skólar hefðu verið rýmdir í nágrenninu í öryggisskyni í upphafi málsins þar sem lögreglan hafi ekki vitað hvort fleiri árásir hefðu verið í vændum eður ei. Lögreglan segir að sú hætta sé liðin hjá.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur einnig tjáð sig um árásina og segir að hugur sinn sé hjá þeim sem særðust og ættingjum þeirra.
„Þetta er mjög erfiður dagur fyrir Svíþjóð. Hugur minn er einnig hjá öllum þeim þar sem venjulegur skóladagur breyttist í martröð. Að sitja óttasleginn fastur í kennslustofu, þar sem þú óttast um líf þitt, er martröð sem enginn á að þurfa að upplifa.“
Ríkisstjórn landsins á í nánum samskiptum við lögregluna vegna málsins. Rannsókn stendur enn yfir.