Fjöldi íbúa á eyjunni Santorini hafa nú flúið eyjuna vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst á sunnudaginn.
Að sögn breska ríkisútvarpsins hafa um 9.000 manns þegar yfirgefið eyjuna, en að jafnaði búa þar um 15.500 manns. Hefur þessi brottflutningur íbúa haldið áfram í dag, og hafa bæði skip og flugvélar verið sendar til eyjunnar til aðstoðar.
Rúmlega 300 jarðskjálftar hafa riðið yfir eyjuna á síðustu tveimur dögum, og hefur því verið spáð að skjálftahrinan gæti varað í nokkrar vikur í viðbót.
Einn viðmælandi Reuters-fréttastofunnar, sem beið eftir ferju frá eyjunni, sagði að Santorini væri nú svo gott sem tóm, allt væri lokað vegna skjálftanna og flestir að yfirgefa eyjuna.
Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og sækja um 4,5 milljónir manna hana á hverju ári, en ferðamannastraumurinn er mestur á sumrin og eru fáir ferðamenn nú á Santorini að sögn yfirvalda.
Forsætisráðherra Grikklands, Kyriakos Mitsotakis, hefur kvatt fólk til þess að halda ró sinni, en hann mun funda með almannavörnum á morgun, miðvikudag, vegna ástandsins.
Eyjan er á virku eldfjallasvæði í Eyjahafi, en stjórnvöld hafa sagt að jarðskjálftarnir tengist flekahreyfingum frekar en kvikuinnskotum.