Argentína dregur sig einnig út úr WHO

Javier Milei er forseti Argentínu.
Javier Milei er forseti Argentínu. AFP

Stjórnvöld í Argentínu hafa ákveðið að fylgja í fótspor Bandaríkjanna og draga sig út úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Þetta er haft eftir Manuel Adorni, upplýsingafulltrúa Javiers Milei, Argentínuforseta.

Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði í seinasta mánuði undir forsetatilskipun þess efnis að Bandaríkin skyldi draga sig út úr stofnuninni. Argentína hefur því ákveðið að fylgja því fordæmi. 

Adorni hefur eftir Milei að ákvörðunin grundvallist á djúpstæðum ágreiningi varðandi aðgerðir WHO, sér í lagi í kórónuveirufaraldrinum. Argentína muni aldrei leyfa alþjóðastofnunum að grípa inn í fullveldi argentínsku þjóðarinnar. 

Argentína fær ekki fjármagn frá WHO til þess að halda úti heilbrigðisþjónustu að sögn Adorni og mun ákvörðunin því ekki leiða til þess að heilbrigðisþjónusta í Argentínu muni skerðast. 

Adorni endaði svo ávarp sitt á þeim orðum að Milei sé þessa stundina að vega og meta það hvort að Argentína skuli einnig draga út úr Parísarsamningnum, rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert