Einn látinn og fimm særðir eftir skotárás

Skotárásin átti sér stað í borginni New Albany í Ohio-ríki. …
Skotárásin átti sér stað í borginni New Albany í Ohio-ríki. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Að minnsta kosti einn er látinn og fimm særðir eftir skotárás í Ohio-ríki og hafa yfirvöld ekki enn haft uppi á meintum skotárásarmanni.

Skotárásin átti sér stað seint í gærkvöldi að staðartíma í vöruhúsi fyrir snyrtivörur í borginni New Albany og voru fimm fluttir á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir skoti.

Ekki talinn vera ógn 

Að sögn lögreglustjóra borgarinnar, Greg Jones, er mögulega vitað um staðsetningu hins grunaða og er ekki talið að hann sé almenn ógn við samfélagið en tekið er fram að skotvopn hafi fundist í vöruhúsinu. 

Segir Jones að svo virðist sem árásin hafi verið skipulögð og tók fram að rýma þurfti 150 manns úr vöruhúsinu.

Harmleikur

Þá sagði hann lögreglu nú vera að vinna að því að framkvæma handtöku á hinum grunaða en vildi ekki gefa upp staðsetningu hans.

„Þetta er harmleikur. Við höfum séð þetta gerast víðs vegar um Bandaríkin en höfðum vonast til að þetta myndi aldrei gerast hér,“ segir lögreglustjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert