Mjólkurkýr í Nevada í Bandaríkjunum hafa sýkst af nýrri tegund af fuglaflensu sem er ólík þeirri sem hefur verið að breiðast út í hjörðum undanfarin ár.
Þetta kom fram í tilkynningu frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu í dag en New York Times greinir frá.
Veiran H5N1 hefur smitað yfir 950 hjarðir í 16 fylkjum Bandaríkjanna á síðasta árinu.
Kýrnar í Nevada smituðust af öðru afbrigði af veirunni sem kallast D1.1 og hefur verið að breiðast út í villtum fuglum og alifuglum. Veiran greindist upphaflega í mjólk sem var safnað úr sílói sem hluti af innlendri mjólkurprófunarstefnu sem Bandaríkin tilkynntu seint á síðasta ári.
D1.1-afbrigðið er talið vera hættulegt fólki. Í nóvember á síðasta ári sýktist 13 ára gömul kanadísk stúlka af veirunni en óljóst er hvernig hún smitaðist. Eini áhættuþáttur hennar var offita en hún veiktist alvarlega og var vistuð á líknardeild vegna líffærabilunar. Hún náði sér þó að lokum.
„Þetta er ekki þróun sem nokkur vildi sjá,“ sagði Louise Moncla, þróunarlíffræðingur sem rannsakar fuglaflensku við Pennsylvaníuháskóla.
„Nú þurfum við að skoða hvort kýrnar séu næmari fyrir þessum veirum en við héldum í upphafi.“