Svíakonungur vottar virðingu sína

Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning votta hér virðingu sína.
Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning votta hér virðingu sína. AFP

Ellefu manns létu lífið í mannskæðustu skotárás í sögu Svíþjóðar í gær. 35 ára gamall maður skaut tíu til bana í skóla í borginni Örebro áður en hann tók eigið líf.

Svíar hafa streymt að skólanum í dag til þess að votta virðingu sína og skilja þar eftir blóm og kerti. Þeirra á meðal eru Karl Gústaf Svíakonungur og eiginkona hans Silvía drottning. Konungurinn segir að þjóðin sé að reyna að skilja það sem hefur átt sér stað og að þessa stundina sé öll þjóðin syrgjandi.

Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar var einnig á vettvangi árásarinnar að votta virðingu sína. Forsætisráðherrann segir að dagsins í gær, 4. febrúar 2025, muni ætíð verða minnst sem svarts dags í sögu sænsku þjóðarinnar. 

Árásir sem þessar fátíðar

Árásir í skólum eru afar fátíðar í Svíþjóð þrátt fyrir að skotárásir og sprengjuárásir hafi færst í vöxt í landinu seinustu misseri, aðallega í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi. 

Í mars 2022 stakk átján ára nemandi tvo kennara sína til bana í menntaskóla í Malmö og í október árið 2015 voru þrír drepnir í skóla í Trollhättan eftir að rúmlega tvítugur maður réðst að fólki vopnaður sverði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert