Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að rífa Grenfell-turninn í Lundúnum en sjö ár eru liðin frá því 72 létust þegar eldur braust út í fjölbýlishúsinu, en bruninn var sá versti í íbúðarhúsnæði í Bretlandi frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Angela Rayner, húsnæðismálaráðherra Bretlands og aðstoðarforsætisráðherra landsins, tilkynnti um ákvörðun sína fyrir framan íbúa sem komust lífs af og ættingja þeirra sem fórust.
Turninn, sem taldi 24 hæðir, gjöreyðilagðist í brunanum en eldurinn dreifði sér hratt um bygginguna þar sem klæðning hússins var talin eiga stóran þátt í því að háhýsið varð alelda, en hún var afar eldfim.
Samtökin Grenfell United, sem koma fram fyrir hönd fólks sem komst lífs af og ættingja, gagnrýna ákvörðun stjórnvalda harðlega. Þeir hafi ekki verið hafðir með í ráðum og þetta væri til skammar.
„Það að hunsa raddir þeirra sem syrgja, um framtíð grafreits ástvina sinna, er smánarlegt og óafsakanlegt.“
Önnur samtök sem nefnast Grenfell Next of Kin segja að málið sé eðlilega mjög viðkvæmt en niðurstaða hafi legið fyrir eftir langt ferli og að fólk hafi verið upplýst um áhyggjur sem menn hafi af öryggismálum á staðnum.
Í rannsóknarskýrslu um brunann, sem var birt í fyrra, kom fram að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir öll dauðsföllin. Þar eru verktakafyrirtæki sökuð um „kerfisbundinn óheiðarleika“.