Vill norska lögreglu með vopnum

Fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs telur rétt að þarlend lögregla beri skotvopn …
Fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs telur rétt að þarlend lögregla beri skotvopn á vakt öllum stundum sem er mikil breyting á núverandi fyrirkomulagi. AFP

Emilie Enger Mehl, sem nýverið sá á eftir lyklum sínum að norska dómsmálaráðuneytinu í hendur Astri Aas-Hansen eftir að norska stjórnin sprakk, hefur nú snúist í afstöðu sinni um hið eilífa þrætuepli um vopnaða norska lögreglu og telur nú rétt að norsk lögregla beri skotvopn öllum stundum.

Biður þingmaðurinn og fyrrverandi ráðherrann Verkamannaflokkinn að taka vopnaburðinn til íhugunar, en Aas-Hansen gegnir ráðherraembætti fyrir hann. Sjálf er Mehl þingmaður Miðflokksins sem að eigin kröfu hvarf úr ríkisstjórn á fimmtudaginn fyrir viku í kjölfar langvarandi deilna um fjórða orkupakka Evrópusambandsins.

„Ég var haldin efasemdum hvað þetta varðar, en eftir að hafa nú borið ábyrgð á málaflokknum í þrjú og hálft ár og hitt fjölda lögregluþjóna, þykist ég þess nú fullviss að tíminn sé réttur til að taka þetta skref,“ segir Mehl við norska dagblaðið VG í dag.

Norskt samfélag sé breytt

Meginreglan er að norska lögreglan beri ekki skotvopn. Í lögreglubifreiðum eru þó skotvopn í læstri hirslu sem grípa má til að fenginni heimild varðstjóra krefjist aðstæður þess. Í fjölda tilvika undanfarin ár hefur dómsmálaráðherra mælt fyrir um að lögregla gangi tímabundið vopnuð við dagleg skyldustörf, svo sem í kjölfar hryðjuverkaárása.

Minnir Mehl á að tími hennar í embætti hafi hafist með því að maður, sem ekki gekk heill til skógar andlega, myrti fimm íbúa norska smábæjarins Kongsberg haustið 2021 og lokið aðeins örfáum dögum áður en tíu manns lágu í valnum eftir skotárás í sænskum skóla – ellefu að árásarmanninum meðtöldum er tók eigið líf í kjölfar ódáðarinnar.

Kveður Mehl norskt samfélag breytt, meðal annars hafi mikil harka færst í átök og uppgjör í undirheiminum. „Við upplifum fleiri hnífstungur, skotárásir og ofbeldi auk þess sem geðræn veikindi eru gríðarmikil áskorun sem lögreglan stendur andspænis í sínum hversdagslega raunveruleika,“ segir ráðherrann fyrrverandi og hvetur stjórnamálaflokka til að ræða vopnunarmálin.

Tók hún málið upp í Stórþinginu í dag og spurði þá hvort hin nýja ríkisstjórn Jonasar Gahrs Støres forsætisráðherra væri tilbúin að beita sér fyrir almennum vopnaburði norsku lögreglunnar.

VG

Politiforum

Nettavisen (ráðherra mótfallinn vopnaburði í júní)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert