Neyðarástand: Merki um landris og þúsundir flýja

Horft yfir Santorini. Fleiri þúsundir hafa flúið eyjuna.
Horft yfir Santorini. Fleiri þúsundir hafa flúið eyjuna. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á grísku eynni Santorini. Rúmlega ellefu þúsund manns hafa yfirgefið eyjuna og ferðum með flugi og ferjum hefur verið fjölgað til að anna flóttanum.

Fleiri en 7.700 skjálftar hafa riðið yfir í grennd við eyjuna á aðeins tæpum tveimur vikum.

Sá stærsti til þessa mældist 5,2 að stærð og varð í gær. Þá varð skjálfti af stærðinni 4,8 í dag.

Áhrifin ná víðar í Kýklades-eyjaklasanum, sem á íslensku nefnast Hringeyjar. Þannig hafa skólar á fleiri en tólf eyjum staðið lokaðir í þessari viku til að gæta varúðar.

Mikill fjöldi barnafólks hefur enda ákveðið að fara brott af Santorini til að bíða hrinuna af sér.

Vísbendingar um landris

Nýjustu mælingar á grundvelli gervihnattagagna benda til þess að land hafi tekið að rísa lítillega á eyjunum umhverfis neðansjávareldfjallið, sem sjá má á kortinu hér að ofan.

Gríska dagblaðið Ta Nea hefur þetta eftir Michalis Foumelis, aðstoðarprófessor við jarðvísindadeild Aristótelesarháskóla í Þessalóníku.

Niðurstöðurnar eru ekki endanlegar og landrisið sem þó mælist er ekki mikið, en það gæti þó gefið til kynna að kvika hafi brotið sér leið upp á minna dýpi. Þar með gætu líkur aukist á eldgosi í grennd við eyjuna.

Segir Foumelis að beðið sé eftir gögnum úr fleiri áttum til að staðfesta að landris hafi átt sér stað.

Fólk bíður þess við höfnina á Santorini að geta farið …
Fólk bíður þess við höfnina á Santorini að geta farið á brott með ferju. AFP

Eitt stærsta eldgos sögunnar

Santorini er raunar öskjubrún eldfjalls sem liggur falið undir sjávarmáli norðaustur af eynni.

„Þarna var eitt stærsta gos á jörðinni ein­hvern tím­ann á brons­öld, fyr­ir um það bil 3.500 árum, og hafði mjög mik­il á allt Miðjarðar­hafið, sér­stak­lega á Egypta­land og lík­lega Grikk­land og eyj­arn­ar þar í kring,“ sagði Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði, í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.

„Eyj­an er eins og hring­ur utan um öskj­una og í gosi á miðöld­um komu upp tvær eyj­ar í öskj­unni, en þarna eru líka mikl­ar forn­minj­ar sem gróf­ust und­ir gos­inu mikla, bæir sem nú er verið að grafa upp und­an 20-30 metra lagi af vikri og ösku sem þeir fóru und­ir. Þannig að mik­il menn­ing­ar­starf­semi er tengd Santor­ini,“ sagði Haraldur.

Eldfjallið nefnist Kolumbo og liggur átta kíló­metra norðaust­ur af Santor­ini.

„Það er neðan­sjáv­ar, en grunnt á því, svona 20-30 metr­ar niður á gíg­brún­ina. Þar hef ég unnið með kaf­báta og rann­sókn­ar­tæki í gígn­um og þar gaus árið 1650. Þá kom upp ský af ösku og vikri sem barst yfir Santor­ini og hafði mjög slæm áhrif og gerði mik­inn usla á norður­hluta eyj­ar­inn­ar,“ sagði Haraldur.

Síðast varð þar eldgos árið 1950.

Forsætisráðherra Grikklands kom til Santorini í dag og hitti þar …
Forsætisráðherra Grikklands kom til Santorini í dag og hitti þar slökkviliðsmenn meðal annars. AFP

Engin bráð hætta, segir forsætisráðherrann

Gríski forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis fullyrti í dag að enga bráða hættu stafaði af þessari fordæmalausu skjálftahrinu, þegar hann heimsótti Santorini og hitti þar íbúa og viðbragðsfólk.

Virknin hefur komið jarðvísindamönnum í opna skjöldu, sem segja að ekki hafi mælst önnur eins skjálftavirkni frá því mælingar hófust árið 1964.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert