Trump vill pappírsrör á bak og burt

Forsetinn vill ekki sjá umhverfisvænu pappírsrörin.
Forsetinn vill ekki sjá umhverfisvænu pappírsrörin. AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur heitið því að Bandaríkjamenn fái að njóta plaströra á ný og bölvaði umhverfisvænum pappírsrörum í sand og ösku.

„Ég mun skrifa undir framkvæmdaskipun í næstu viku sem bindur enda á áherslu Bidens á pappírsrör, sem virka ekki. AFTUR Í PLAST!“ sagði Trump á samfélagsmiðli sínum Truth Social.

Biden hafði tilkynnt um áform um að binda enda á notkun einnota plastáhalda, þar á meðal plaströra, í ríkisstofnunum fyrir árið 2035.

„Frjálslynd rör virka ekki“

Trump hefur þegar tekið fyrir hin ýmsu umhverfisverndarmál forvera sinna en hann ákvað til að mynda að Bandaríkin myndu draga sig út úr Parísarsamkomulaginu í annað sinn, en fyrra skiptið var einnig fyrir hans tilstilli á fyrra kjörtímabili hans.

Notkun pappírsröra virðist lengi hafa valdið Trump miklu hugarangri en forsetinn hefur áður tjáð sig um óbeit sína á þeim.

„Þau vilja banna rör. Hefur einhver prófað þessi pappírsrör? Þau eru ekki að virka það vel,“ sagði hann á kosningafundi árið 2020.

Kosningateymi Trump setti í kjölfarið á sölu plaströr sem á stóð „Frjálslynd rör virka ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka