Elon Musk, ríkasti maður heims og ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, segist ekki hafa áhuga á að taka yfir starfsemi samfélagsmiðilsins TikTok í Bandaríkjunum.
„Ég hef ekki boðið í TikTok og hef ekki hugmynd um hvað ég myndi gera ef ég ætti TikTok,“ sagði Musk í lok janúar, en ummælin voru birt í gær.
TikTok aftengdi aðgang notenda sinna í Bandaríkjunum þann 19. janúar, skömmu áður en landsbundið bann við forritinu átti að taka gildi.
Tólf klukkustundum síðar fengu bandarískir notendur aðgang að miðlinum á ný eftir að gildistöku laganna var frestað í 75 daga fyrir tilstilli Donalds Trumps.
Trump sagði fljótlega í kjölfarið að hann myndi taka því með opnum huga ef Musk myndi vilja kaupa TikTok.