Björguðu börnum úr bruna

Eldur kom upp í íbúðarhúsi á Jeløya í Moss í …
Eldur kom upp í íbúðarhúsi á Jeløya í Moss í gærkvöldi og þykja nágrannar hafa unnið hetjudáð við björgun fjögurra barna út úr húsinu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Chris Nyborg

Slökkviliðið í Moss í Noregi, rúma 60 kílómetra suður af Ósló, mærir nokkra íbúa þar í bænum í hástert fyrir að leggja gjörva hönd á plóg við björgun fjögurra barna út úr brennandi íbúðarhúsi nágranna á eynni Jeløya í gærkvöldi, en hún tilheyrir sveitarfélaginu og búa þar rúmlega 12.000 manns.

Það var upp úr klukkan 20 í gærkvöldi að norskum tíma, 19 á Íslandi, sem tilkynning barst um eld í húsinu og var slökkvilið komið á vettvang tíu mínútum síðar og slökkvistarf hafið.

Eftir því sem Harald Mogen, vaktstjóri neyðarlínunnar 110, sagði norska ríkisútvarpinu NRK telur slökkvilið eldinn hafa kviknað í kjallara hússins og breitt svo úr sér.

Börnunum líður vel

Vel gekk að koma íbúum hússins út og munaði þar mjög um dygga aðstoð nágrannanna á ögurstundu, en að sögn Gjermun Westberg Hage lögregluvarðstjóra voru íbúarnir fluttir á sjúkrahús til skoðunar. Grunur lék þá á að börnin fjögur hefðu fengið reykeitrun.

„Börnunum líður vel þrátt fyrir það sem gerðist, en þau þurftu að gangast undir skoðun vegna gruns um að þau hefðu andað að sér reyk,“ segir varðstjóri.

Sem fyrr segir telur slökkvilið nágrannana hafa sýnt manndáð hina mestu við björgun barnanna, en það var klukkan stundarfjórðung yfir níu í gærkvöldi að norskum tíma sem slökkvilið tilkynnti á samfélagsmiðlum að allir íbúar hússins væru óhultir.

NRK

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert