Ákæruvaldið í Svíþjóð hefur staðfest hver það var sem skaut 10 að bana í skóla í Örebro í liðinni viku. Lögreglan hefur þó ekki enn greint formlega frá nafni byssumannsins.
Sænskir fjölmiðlar hafa aftur á móti birt upplýsingar um manninn sem hét Rickard Andersson og var 35 ára gamall.
Honum hefur verið lýst sem atvinnulausum einsetumanni sem átti við geðræn vandamál að stríða. Talið er að hann hafi verið einn að verki þegar hann lét til skarar skríða á þriðjudaginn. Hann skaut 10 til bana og talið er að hann hafi síðan tekið eigið líf.
Lögreglan segir í yfirlýsingu að ákæruvaldið hafi flutt rannsókn málsins í hendur lögreglunnar þar sem hinn grunaði væri látinn. Annars sjá saksóknarar um rannsókn slíkra mála.
Lögreglan nefndi byssumanninn ekki á nafn en saksóknarinn Elisabeth Anderson staðfesti í samtali við sænska blaðið Expressen að Andersson hefði verið árásarmaðurinn.
Enn er ekkert vitað um ástæðu þess að Anderson gerði árás á skólann.
Fram hefur komið að maðurinn hafi verið nemandi í Riberska-háskólanum en að hann hafi ekki sótt þar tíma frá árinu 2021.
Þá hefur lögreglan ekki gefið upp þjóðerni þeirra sem létust. Um er að ræða sjö konur og þrjá karlmenn, en fólkið var á aldrinum 28 til 68 ára. Lögreglan hefur þó staðfest í samtali við fjölmiðla að fólkið hafi verið af nokkrum þjóðernum. Sænska ríkisútvarpið, SVT, segir að meirihluti hinna látnu hafi verið af erlendu bergi brotinn.