Segir Trump reyna að knésetja Íran

Masoud Pezeshkian, forseti Írans.
Masoud Pezeshkian, forseti Írans. AFP

Masoud Pezeshkian, forseti Írans, hefur sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að reyna að knésetja Íran.

Þetta sagði forsetinn þegar Íranar minnast þess í dag að 46 ár eru liðin frá byltingunni í Íran þar sem stjórnarfar landsins breyttist úr keisaradæmi undir stjórn Íranskeisarans Mohammad Reza Shah Pahlavi í íslamskt lýðveldi undir stjórn æðstaklerksins Ruhollah Khomeini.

Fjölmenni hefur komið saman víða í Íran í dag til að minnast dagsins.

Vill ekki stríð en beygir sig ekki undir vald útlendinga

„Trump segir: „Við viljum tala“ og svo skrifar hann niður öll þau samsæri sem er ætlað að knésetja byltingu okkar,“ sagði Pezeshkian á fjöldafundi í dag. Með orðum sínum vísaði hann til refsiaðgerða gagnvart Íran sem bandarísk yfirvöld kynntu fyrr í þessum mánuði.

„Við erum ekki að leita eftir stríði,“ sagði hann og bætti við: „Við munum aldrei beygja okkur undir vald útlendinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert