Trump staðfestir 25% tolla á allan innflutning á stáli og áli

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað tilskipun um að leggja 25 prósenta toll á innflutning á stáli og áli frá 4. mars.

„Í dag er ég að einfalda tolla okkar á stáli og áli. Það verður 25 prósenta tollur án undantekninga eða undanþágu,“ sagði forsetinn við fréttamenn.

Trump segir að þetta sé stórmál og sé upphafið að því að gera Bandaríkin auðug á ný.

„Þjóðin krefst þess að stál og ál sé framleitt í Bandaríkjunum og að endingu mun þessi ákvörðun tryggja lægra vöruverð í landinu,“ segir Trump.

Bandaríkin eru stærsti innflytjandi á áli í heimi og kemur það mest frá Kanada og Mexíkó og þá flytja Bandaríkjamenn töluvert inn af stáli frá Brasilíu og Suður-Kóreu.

Trump boðar hærri tolla á fleiri innfluttar vörur eins og bíla, lyf og tölvukubba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert