Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur kallað eftir því að stofnaður verði evrópskur her. Hann segir Úkraínu ekki lengur geta treyst á stuðning Bandaríkjanna í baráttu sinni við Rússland.
Þetta sagði Selenskí á öryggisráðstefnu sem nú fer fram í Munchen í Þýskalandi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti kom mörgum á óvart þegar hann greindi frá því að hann og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefðu talað saman og myndu stefna að því að hefja viðræður um að binda enda á innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.
Sjálfur hitti Selenskí varaforseta Bandaríkjanna, J.D. Vance, í gær en Úkraínuforsetinn leitar nú allra ráða til að sjá til þess að rödd Úkraínu verði ekki hunsuð í viðræðum um frið.
Segir Selenskí að ekki sé hægt að útiloka þann möguleika að Bandaríkin neiti Evrópu um aðstoð varðandi ógnir sem steðja að álfunni.
Segist hann trúa því að sú stund sé runnin upp að evrópskur her verði skapaður.
Hugmyndir um sameiginlegan her Evrópulanda hafa áður komið fram án þess að ná festu og að sögn AFP-fréttaveitunnar þykir ólíklegt að ákall Selenskí verði til þess að þær verði að veruleika.
Þá vill Selenskí að rödd Úkraínu fái að heyrast í komandi friðarviðræðum Trumps og Pútín.
„Úkraína mun aldrei samþykkja samninga sem gerðir eru fyrir aftan bak okkar og án okkar þátttöku,“ sagði forsetinn í ræðu sinni í dag. Engar ákvarðanir ættu að vera teknar um Úkraínu án aðkomu landsins og það sama ætti við um Evrópu.
Varaði Úkraínuforsetinn við því að Pútín myndi reyna að notfæra sér Trump og hugsanlega reyna að fá hann til Moskvu í maí þegar árlega skrúðganga rússneska hersins verður, en þá er fagnað sigrinum á nasistum í seinni heimsstyrjöldinni.
Selenskí er nú að leitast eftir loforði um öryggi frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu til að tryggja að friðarsamningar myndu sjá til þess að Rússland gæti ekki endurræst stríðið skyndilega á ný síðar.
„Pútín getur ekki lofað raunverulegu öryggi, ekki bara vegna þess að hann er lygari heldur vegna þess að Rússland í sinni núverandi mynd þarf á stríði að halda til þess að halda völdum.“
Segir Selenskí að kröftugar refsiaðgerðir gegn Rússlandi og uppbygging Úkraínuhersins gætu hjálpað til við að koma á friði. Einnig sagðist hann opinn fyrir hugmyndinni að hafa evrópska friðargæslu.