Selenskí vill evrópskan her

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er staddur á öryggisráðstefnunni í Munchen.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er staddur á öryggisráðstefnunni í Munchen. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti hef­ur kallað eft­ir því að stofnaður verði evr­ópsk­ur her. Hann seg­ir Úkraínu ekki leng­ur geta treyst á stuðning Banda­ríkj­anna í bar­áttu sinni við Rúss­land.

Þetta sagði Selenskí á ör­ygg­is­ráðstefnu sem nú fer fram í Munchen í Þýskalandi.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti kom mörg­um á óvart þegar hann greindi frá því að hann og Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti hefðu talað sam­an og myndu stefna að því að hefja viðræður um að binda enda á inn­rás­ar­stríð Rúss­lands í Úkraínu.

Sjálf­ur hitti Selenskí vara­for­seta Banda­ríkj­anna, J.D. Vance, í gær en Úkraínu­for­set­inn leit­ar nú allra ráða til að sjá til þess að rödd Úkraínu verði ekki hunsuð í viðræðum um frið.

Stund­inn sé runn­in upp

Seg­ir Selenskí að ekki sé hægt að úti­loka þann mögu­leika að Banda­rík­in neiti Evr­ópu um aðstoð varðandi ógn­ir sem steðja að álf­unni.

Seg­ist hann trúa því að sú stund sé runn­in upp að evr­ópsk­ur her verði skapaður.

Hug­mynd­ir um sam­eig­in­leg­an her Evr­ópu­landa hafa áður komið fram án þess að ná festu og að sögn AFP-frétta­veit­unn­ar þykir ólík­legt að ákall Selenskí verði til þess að þær verði að veru­leika.

Ákvarðanir ættu ekki að vera tekn­ar án aðkomu Úkraínu

Þá vill Selenskí að rödd Úkraínu fái að heyr­ast í kom­andi friðarviðræðum Trumps og Pútín.

„Úkraína mun aldrei samþykkja samn­inga sem gerðir eru fyr­ir aft­an bak okk­ar og án okk­ar þátt­töku,“ sagði for­set­inn í ræðu sinni í dag. Eng­ar ákv­arðanir ættu að vera tekn­ar um Úkraínu án aðkomu lands­ins og það sama ætti við um Evr­ópu.

Varaði Úkraínu­for­set­inn við því að Pútín myndi reyna að not­færa sér Trump og hugs­an­lega reyna að fá hann til Moskvu í maí þegar ár­lega skrúðganga rúss­neska hers­ins verður, en þá er fagnað sigr­in­um á nas­ist­um í seinni heims­styrj­öld­inni.

Pútín geti ekki lofað raun­veru­legu ör­yggi

Selenskí er nú að leit­ast eft­ir lof­orði um ör­yggi frá bæði Banda­ríkj­un­um og Evr­ópu til að tryggja að friðarsamn­ing­ar myndu sjá til þess að Rúss­land gæti ekki end­ur­ræst stríðið skyndi­lega á ný síðar.

„Pútín get­ur ekki lofað raun­veru­legu ör­yggi, ekki bara vegna þess að hann er lyg­ari held­ur vegna þess að Rúss­land í sinni nú­ver­andi mynd þarf á stríði að halda til þess að halda völd­um.“

Seg­ir Selenskí að kröft­ug­ar refsiaðgerðir gegn Rússlandi og upp­bygg­ing Úkraínu­hers­ins gætu hjálpað til við að koma á friði. Einnig sagðist hann op­inn fyr­ir hug­mynd­inni að hafa evr­ópska friðargæslu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert