Tæknirisinn Microsoft tilkynnir nú að þar á bæ sé ný byltingarkennd skammtatölva (e. quantum computer) í burðarliðnum sem ganga muni fyrir skammtaörgjörvanum Majorana 1 sem má líkja við smára í hálfleiðaragjörvum hefðbundinna tölva auk þess sem hann býður tengingu við milljóna skammtabita (e. qubit) kerfi sem rúmast í tiltölulega litlum örgjörvakæli.
Skammtabiti er grunneining skammtaupplýsinga, skammtafræðilega útgáfan af minniseiningu gamla tvíundakerfisins, en til þess að gera skammtaörgjörvann sem haganlegast úr garði beittu sérfræðingar Microsoft grannfræðilegum ofurleiðara sem verið hefur hvorki meira né minna en 19 ár í burðarliðnum.
Skammtabitarnir grannfræðilegu, sem Microsoft hefur leitt fram, eru af nýjum efnisfasa sem ekki rúmast innan hinna þriggja sígildu, það er fasts efnis, vökva eða lofts, og eftir því sem bandaríska dagblaðið New York Times greinir frá er þar komið efnisform sem fjöldi sérfræðinga hefur hingað til talið ómögulegt að framkalla.
Byggja skammtabitarnir í Majorana 1-örgjörvanum á fermíeindum, eða oddskiptaeindum, (e. fermions) sem eru öreindir á borð við rafeindir og kvarka og boða talsmenn Microsoft nú smíði skammtatölva sem raunhæfrar markaðsvöru innan ekki lengri tíma en fimm ára.
„Við munum leiða fram gallaþolna skammtatölvu, raunverulega gallaþolna skammtatölvu, á fáeinum árum, ekki áratugum,“ segir dr. Chetan Nayak, stjórnandi skammtavélbúnaðaráætlunar Microsoft, í samtali við viðskiptatímaritið Forbes, en hann hefur sveist blóðinu yfir verkefninu um tæplega tveggja áratuga skeið.
„Þegar hún liggur fyrir munum við byggja á grunni hennar þar til við höfum náð nytjagildi,“ segir Nayak sigri hrósandi.
Dr. Ottó Elíasson eðlisfræðingur útskýrir notkunarsvið skammtatölva í svari á Vísindavef Háskóla Íslands og segir þar að almennt talið sé með skammtatölvu átt við tölvu sem framkvæmt geti svokallaða stafræna skammtareikninga. Aðgerðir skammtatölvu séu framkvæmdar á skammtabitum, en til að nýta eiginleika skammtatölvunnar til fulls þurfi forritarinn að kunna að nýta sér skammta-eiginleika skammtabitanna í tölvunni sem sé ekki einfalt mál.
Í ranni Microsoft hefur sérfræðingum þegar tekist að þróa átta skammtabita tækni sem komin er í notkun hjá vígbúnaðartæknifyrirtækinu Defense Advanced Research Projects Agency (DARPA) sem Microsoft á nú í samstarfi við í lokaáfanga verkefnis sem þar gengur undir nafninu Lítt könnuð kerfi fyrir skammtatölvur með nytjagildi, eða Underexplored Systems for Utility-Scale Quantum Computing (US2QC) program.